Framkvæmdir Háskóla Íslands (HÍ) og Félagsstofnunar stúdenta (FS) við breytingar á Hótel Sögu við Hagatorg eru á lokastigi. Fjallað er um verkefnið í Morgunblaðinu í dag. HÍ tekur húsnæðið í notkun núna í ágúst og verður allt húsnæðið tekið í notkun á næstu tveimur mánuðum fyrir utan Grillið, veitingastað á efstu hæð hússins.
HÍ og FS keyptu Hótel Sögu af Bændasamtökunum á 3,6 milljarða króna í upphafi árs 2022 undir starfsemi sína. Áætlaður kostnaður við breytingar á húsnæðinu er rúmir 9 milljarðar og því gæti heildarkostnaður orðið um 12,7 milljarðar króna. Framkvæmdir hófust með niðurrifi í mars 2022 og uppbygging hófst haustið 2023. Verkið var skipulagt þannig að byrjað var á efri hæðum og unnið niður og eru kennslustofur á neðri hæðum.
„Núverandi skipting gerir ráð fyrir að HÍ nýti 76,5% og miðast uppgefið kaupverð við þann eignarhlut. Þessi skipting er þó ekki endanleg. Rökin fyrir kaupunum voru skýr: Staðsetning Sögu væri einstök fyrir starfsemi HÍ og FS og ljóst að þarna væri tækifæri sem vandséð væri að myndi bjóðast aftur. Þar með væri hægt að flytja starfsemi HÍ frá Stakkahlíð, Neshaga og Skipholti inn á háskólasvæðið sem gæfi tækifæri til að bæta bæði kennslu og rannsóknir auk þess sem unnt væri að ná fram samlegð og hagræðingu í rekstri,“ segir Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknimála hjá HÍ. 23,5% yrðu þannig stúdentagarðar FS.
Fjallað er ítarlega um framkvæmdirnar í Morgunblaðinu í dag.