Haraldur Briem fyrrum sóttvarnalæknir er látinn, 80 ára að aldri.
Morgunblaðið greinir frá andláti Haraldar, sem lést 11. ágúst á líknardeild Landspítalans í Kópavogi.
Eftirlifandi eiginkona Haraldar er Snjólaug G. Ólafsdóttir, f. 1945, fyrrum skrifstofustjóri. Sonur þeirra er Ólafur Andri Briem, fæddur 1974.
Haraldur fæddist í Reykjavík 9. ágúst 1945. Hann varð stúdent frá MR 1965, lauk læknaprófi við Háskóla Íslands 1972 og doktorsnámi í læknavísindum við Karolinska Institutet í Stokkhólmi árið 1982. Haraldur fékk sérfræðingsleyfi í Svíþjóð í bráðum smitsjúkdómum árið 1979 og ári síðar hér á landi.
Sóttvarnalæknir í 18 ár
Haraldur starfaði sem læknir hér og landi og í Svíþjóð um árabil, með sérhæfingu í smitsjúkdómum og sýklarannsóknum. Við heimkomu frá Svíþjóð 1982 fékk hann fljótlega stöðu sérfræðings í smitsjúkdómum við Borgarspítalann og varð síðar yfirlæknir smitsjúkdómadeildar. Árið 1995 hóf hann störf við landlæknisembættið, með áherslu á sóttvarnir, og gegndi um tíma stöðu aðstoðarlandlæknis og sem settur landlæknir. Frá ársbyrjun 1998 til 2015 var hann sóttvarnalæknir við embætti landlæknis.
Haraldur stundaði rannsóknir og kennslu í sínum fræðum við Háskóla Íslands og einnig í háskólum í Svíþjóð. Var hann ásam fleiri læknum í fararbroddi hér á landi í baráttu gegn alnæmi, við erfiðar aðstæður. Hann gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum fyrir lækna, sat meðal annars í stjórn Læknafélags Reykjavíkur, og var lengi formaður Félags ísl. smitsjúkdómalækna. Hann átti jafnframt sæti í fjölmörgum nefndum og ráðum. Eftir Harald liggur fjöldi greina í hérlendum og erlendum fagtímaritum, meðal annars ritaði hann leiðara í tímaritinu Lancet.
Haraldi hlotnuðust ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín. Þannig fékk hann Norrænu lýðheilsuverðlaunin árið 2012 og íslensku fálkaorðuna árið 2019 fyrir störf á vettvangi heilsuverndar og lýðheilsu.