Mike Donilon, einn helsti kosningaráðgjafi Joe Biden fyrrverandi Bandaríkjaforseta, upplýsti á lokuðum skýrslutökufundi hjá eftirlitsnefnd fulltrúadeildarinnar í vikunni að hann hafi fengið 4 milljónir dala greiddar fyrir störf sín við forsetakosningabaráttu Biden árið 2024 og hefði átt von á öðrum 4 milljónum ef Biden hefði unnið kosningarnar og verið endurkjörinn. Þetta kemur fram í umfjöllun CNN, sem segja að fyrri greiðslan hafi verið opinberuð í bókinni Original Sin: President Biden’s Decline, Its Cover-up, and His Disastrous Choice to Run Again eftir blaðamennina Jake Tapper og Alex Thompson. Hins vegar sé himinhár bónus fyrir endurkjör eitthvað sem hafi ekki áður tíðkast og sé í raun hættuleg þróun að margra mati.
Donilon var meðal þeirra sem komu fram fyrir nefndina í þessari viku, en tilefnið var að undirlagi Repúblikana sem hafa hrundið af stað rannsókn á andlegu og líkamlegu atgervi Biden í embætti og mögulegum tilraunum Hvíta hússins til að hylma yfir veikindi forsetans. Í yfirlýsingu við byrjun fundarins, sem CNN hefur undir höndum, segir Donilon: „Ég sá dag eftir dag leiðtoga sem var virkur þátttakandi og með fulla stjórn á mikilvægum málum, bæði innanlands og utan.“
„Ég trúði því þann dag sem Joe Biden sór eiðinn að hann væri rétti maðurinn til að leiða þjóðina – og sú trú breyttist aldrei alla hans forsetatíð,“ sagði Donilon einnig í yfirlýsingunni.
Nefndin hefur einnig rætt við Steve Ricchetti, annan háttsettan ráðgjafa Biden, sem sagði rannsóknina „fordæmalausa tilraun til að hræða og skaða fyrrverandi ríkisstjórn.“
Allt bendir til þess að embættistíð Joe Biden sé orðin að pólitísku skotmarki í þessum rannsóknum, enda hefur nokkrum fyrrverandi ráðgjöfum forsetans verið stefnt fyrir nefndina. Þeir hafa þó neitað að svara spurningum og hafi vísað til fimmta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar, sem segir að ekki sé hægt að krefja vitni um að svara ásökunum sem gætu komið sök á hann sjálfan
Þar á meðal er læknir Hvíta hússins, Dr. Kevin O’Connor, aðstoðarmaður forsetans Anthony Bernal og Annie Tomasini, staðgengli starfsmannastjóra Hvíta hússins. Öll neituðu þau að svara spurningum í byrjun mánaðar.