Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir, lýsir timburmönnum í aðsendri grein á akureyri.net. í dag. Bendir hann á að áfengisfráhvörf geti verið lífshættulegt ástand.
Ólafur segir að vera timbraður sé orðalag um afleiðingar af notkun áfengis og lýsi fráhvarfi eftir drykkju áfengis í eitt kvöld eða eina helgi. Þetta sé líkamlegt ástand, eftir notkun vímuefnis sem í raun hafi eitrunaráhrif og einkennin séu höfuðverkur, roði og heit húð, slen, hraður hjartsláttur, spenna og svefnleysi.
„En þar sem áfengi er hugbreytandi efni eru einkennin líka andleg með kvíða og depurð, viðkvæmni fyrir hljóðum og ytra áreiti, skapbreytingum, pirringi og skertri ályktunarhæfni og einbeitingu,“ segir hann í greininni.
Eftir hið efnafræðilega vellíðunarástand vímunnar birtist þynnka fráhvarfsins sem með endurtekningu leiði til aukinnar löngunar í efnið og vímu þess og vaxandi þols. Afréttarinn sé til að milda truflandi einkenni fráhvarfsins. Það sé alvarlegt merki um að fíkn sé að myndast þegar viðkomandi þurfi að drekka hraðar eða meira til þess að geta skemmt sér í boðinu.
„Áfengisfráhvarf eftir langvarandi fyllerí eða samfellda áfengisnotkun er lífshættulegt ástand,“ segir Ólafur. „Efnaskipti eru eitruð, innri líffæri eins og lifrin óstarfhæf og óeðlilegt og hættulegt álag verður á hjartað. Heilinn er bilaður og mikill óróleiki og skjálfti gerir vart við sig og að lokum hverfur raunveruleikaskyn og vitræn starfsemi truflast. Hann er með tremma er þá sagt eða hún er komin i deleríum þegar ofskynjanir eða rugl bættist við.“
Annað dæmi um alvarlegan skaða sem hlýst af völdum áfengisdrykkju er bráð áfengiseitrun eða áfengisdauði útihátíðarinnar. Þetta gerist oft hjá ungu fólki og þessu fylgir meðvitundarleysi og lífshættuleg dempun á stýringu öndunar.
Hið þriðja dæmi er svo áhrifamikil breyting á heilsu, hegðun, hugsun og hamingju sem alkóhólistinn og fjölskylda hans verður fyrir sökum drykkjunnar.
„Vertu varkár í umgengni þinni við áfengi,“ segir Ólafur að lokum. „Ef þú færð timburmenn eða drekkur illa, eða margir drykkjumenn eru í ættinni þinni, þá ættir þú að hugleiða að nota alls ekki áfengi. Ef þú ert undir álagi, í samskiptaerfiðeikum eða í sorg. Svo ekki sé talað um andleg veikindi eða einbeitingatruflun. Þá ættir þú að fara sérstaklega varlega í áfengisnotkun. Fræddu börnin þín og hvettu þau til að bragða ekki áfengi fyrir tvítugt, á meðan heilinn er enn að þroskast. Ef þú velur að nota áfengi, settu þér þá reglur um notkun þess, notaðu skynsemi, þekkingu og varkárni.“