Skiptar skoðanir eru á fundi utanríkismálanefndar Alþingis sem var haldinn í dag að beiðni stjórnarandstöðunnar. Stjórnarandstæðingar eru enn á því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra stefni með þjóðina inn í Evrópusambandið en ráðherra segir að fundurinn hafi verið liður í að treysta stoðir Íslands í varnarmálum, líkt og aðrar Evrópuþjóðir eru að gera um þessar mundir.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir í samtali við RÚV að það hafi skýrt komið fram á fundinum að Íslandsheimsókn forseta framkvæmdastjórnar ESB hafi verið upptaktur að aðildarviðræðum. Eins hafi komið skýrt fram að Þorgerður hefði áhuga á að ganga í ESB sama hvað sem hafi verið tíðindi fyrir Sigurð, sem í raun kemur á óvart þar sem þjóðaratkvæðisgreiðsla um aðildarviðræður er á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og eins er ekkert leyndarmál að flokkur Þorgerðar, Viðreisn, er spenntur fyrir Evrópusambandinu og hlynntur aðild svo lengi sem að samþykki þjóðarinnar liggi fyrir.
Eftirfarandi kemur fram á vefsíðu Viðreisnar:
„Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu lýðræðisþjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að auka enn frekar þátttöku sína í Evrópusamstarfinu og gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu.
Á þeim forsendum leggur Viðreisn áherslu á að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið að undangengnu samþykki þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu. Það þýðir að haldin verði fyrst þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna og síðar um samningsdrög, þegar þau liggja fyrir.“
Þorgerður segir við RÚV að þessi túlkun stjórnarandstöðunnar eigi ekki við rök að styðjast og bendir á að heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hafi verið til að gæta viðskiptahagsmuna í tengslum við EES-samninginn og vegna öryggis- og varnarmála.
„Ísland líkt og aðrar Evrópuþjóðir rísi nú upp og treysti stoðir sínar í varnarmálum.“
Guðlaugur Þór Þórsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir fundinn hafa staðfest áhyggjur stjórnarandstöðunnar og leikritið um ESB sé þegar hafið. Ljóst sé að von der Leyen hafi verið að fara að fyrirmælum ríkisstjórnarinnar þegar hún sagði aðildarumsókn Íslands enn vera gilda. Guðlaugur sagði við fréttastofu Vísis:
„Trúðu mér. Ursula er ekki að segja að umsóknin sé enn þá gild, nema vegna þess að því hafi verið komið af af íslensku ríkisstjórninni og forystumönnum hennar.“
Rétt er að geta þess að ESB hefur ítrekað komið því á framfæri síðasta áratuginn að aðildarumsókn Íslands hafi aldrei verið dregin til baka með formlegum hætti. Til dæmis í janúar á þessu ári. Þegar talsmaður stækkunarstjóra ESB sagði umsóknina enn gilda í samtali við RÚV, en þáverandi stækkunarstjóri hafði árið 2015 komið því skýrt á framfæri að bréf þáverandi utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar, hefði ekki dregið aðildarumsókn Íslands formlega til baka.