Sigurþóra Bergsdóttir, varaþingmaður Samfylkingar, greinir frá því að hún slasaðist á rafhlaupahjóli. Ummerkin eru vel sjáanleg á andlitinu en sem betur fer skemmdist ekkert sem ekki verður tekið til baka.
„Á ensku er vel þekkt myndlíking að missa andlitið (to lose face). Samkvæmt skilgreiningum þýðir það að missa virðingu annarra eða álit, að gera eitthvað sem lætur þig virka veika fyrir. Ég var ekki viss um að ég vildi segja frá þessu opinberlega en nú ætla ég að fara að láta sjá mig utanhúss og mér finnst ég þurfa að útskýra þetta lúkk,“ segir Sigurþóra í færslu á samfélagsmiðlum. „Málið er að á mánudag fyrir viku þá missti ég bókstaflega andlit mitt. Ég tók skyndiákvörðun að taka Hopp hjól að afloknu skemmtilegu kvöldi og datt á andlitið.“
Sigurþóra segir að fyrir einhverja lukku þá hafi einu afleiðingarnar verið þær að hún fékk rispur, skurði í andliti og risastórt mar en „ekkert sem skemmdist sem ekki verður tekið til baka,“ segir hún. Hún segist þó meðvituð um að hún hafi verið ótrúlega heppin og meðvituð um það sem hefði geta gerst.
„Ég grínaðist rétt fyrir þetta að nú væri kominn tími fyrir mig að taka alvöru frí, í raun fyrsta alvöru fríið mitt í 6 ár, en að mér tækist að taka mig svona algerlega úr sambandi óraði mig ekki fyrir,“ segir Sigurþóra. „Fyrstu dagarnir eru hálfgerð móða sársauka og þreytu, ég er búin að sofa meira en ég hef gert síðustu árin, um 12 tímar á sólahring eru smá breyting frá um 5 tíma hámarki síðustu missera. Þannig hef ég verið neydd í hvíldina sem ég þráði svo mikið. Það er ekkert eins táknrænt og að raunverulega missa andlitið og geta ekkert gert til að ná því aftur, annað en að bíða og þrauka.“
Slysið hafi kallað á alls konar tilfinningar, hugsanir og tengingar við aðra hluti sem hún hafi sennilega þurft á að halda. Hún hafi nýlega klárað sitt fyrsta þing eftir að hafa verið óvænt kölluð hratt inn í byrjun maí. Hún hafi hætt að vera andlit Bergsins – Headspace.
„Annars vegar var það ótrúlega frelsandi að geta stigið út úr Berginu, sem ég hafði verið vakandi og sofandi yfir í bráðum 7 ár en einnig var það ákveðin berskjöldun fyrir mig að stíga allt í einu fram sem atvinnustjórnmálamaður,“ segir Sigurþóra. „Bergið er nefnilega það sem ég er stoltust af í mínu lífi. Ferðalagið frá því að fá hugmynd yfir í að verða faglegt og flott úrræði sem sinnir allt að 120 ungmennum á viku, um allt land. Að vera orðin þekkt stofnun í okkar samfélagi og í raun ómissandi hluti af þjónustu við ungt fólk. Það ferðalag var svo magnað og ég held ég verði að skrifa þá sögu seinna. Bergið er allavega til og stendur styrkum fótum með frábæru fólki sem er búið að byggja það upp með mér. Og tíminn fyrir mig að stíga út var alveg réttur fyrir mig og fyrir Bergið. Svona andlitslaus hugsa ég mikið um grímurnar sem við setjum upp í mismunandi hlutverkum.“
Hún segir það hafa verið gefandi og nýja reynslu að koma inn á Alþingi. Stað sem sé eins og leikhús, en þó ekki í neikvæðum skilningi þess orðs.
„Maður er með skemmtilegum og samhentum hópi að vinna að góðum verkefnum. En maður er líka að leika með aðilum sem kannski eru ekkert ánægð með hlutverkin sem þau fengu,“ segir hún. „Hlutverkum var nefnilega breytt hratt eftir kosningar. Fólk sem áður var í aðalhlutverki var allt í einu orðið að aukaleikurunum, var ekki drífandi í atburðarásinni og ég held að einhverju leiti hafi það leitt af sér mikinn hlutverkarugling og vanlíðan hjá þeim leikendum. Við sem komum ný inn og tókum af þeim hlutverkin þurfum líka að átta okkur á hvernig við eigum að vinna með okkar mótleikurunum. Það versta er að finna vantraust á milli fólks, við getum ekki unnið saman ef við treystum ekki hvert öðru á sviðinu. Við þurfum kannski aðeins að átta okkur á því hvert hlutverk allra er, hvernig getum við gefið öllum sviðsljósið og athygli þannig að öll sjónarmið komist að og að fólki finnist á sig hlustað.“
Að lokum nefnir hún það að meginmálið fyrir hana sé að finna hvernig þessi hópur og þessi ríkisstjórn er svo mikilvæg á þessum tímapunkti og að hún hafi svo sannarlega eitthvað fram að færa. Hún muni hvíla sig núna en koma fílefld til baka og vekja athygli á málum og fólki.