Sífellt fleiri kalla eftir því að 71. grein þingskapalaga verði beitt til þess að stöðva málþóf stjórnarandstöðuflokkanna. Fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins segir að ræðum verði haldið áfram til að stöðva frumvarp um veiðigjöld.
„Mér finnst vera kominn tími til þess að stöðva umræður um veiðigjaldið á þingi og ganga til atkvæða. Til þess þarf að virkja 71 grein laga um þingsköp sem heimilar einmitt slíkar aðgerðir. Hvorki þjóð né þing getur setið lengur undir þeim sirkus sem nú er sýndur við Austurvöll. Fámennur hópur þingmanna gengur erinda nokkurra fjölskyldna og hefur tekið lýðræðið í gíslingu,“ segir Páll Ásgeir Ásgeirsson, rithöfundur og leiðsögumaður, í færslu sem margir hafa deilt á samfélagsmiðlum. „Ríkisstjórn sem hefur traustan meirihluta á þingi og veit af víðtækum meirihlutastuðningi þjóðarinnar við þessi áform verður að grípa til aðgerða. Það verður hávaði og fjaðrafok í smástund en við munum þakka þeim fyrir að stöðva þessa vitleysu og stjórnin verður enn sterkari eftir.“
Málþóf stjórnarandstöðuflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks gegn veiðigjaldafrumvarpinu heldur áfram og er umræðan orðin sú þriðja lengsta í sögunni. Enginn endir virðist í sjónmáli og í dag viðurkenndi Jón Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra, að ræðum yrði haldið áfram svo lengi sem þurfa þyki til að málið verði tekið af dagskrá.
Hefur engu skipt þó að stuðningur við frumvarpið sé mikill og óvinsældir stjórnarandstöðunnar aukist eftir því sem málþófið heldur áfram. Þá hafa stjórnmálaskýrendur bent á að það sé algjörlega nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að koma frumvarpinu í gegn.
Virðist því sem svo að það sé einungis hægt með því að beita 71. grein þingskapalaga. Kjarnorkuákvæðinu svokallaða, sem hefur ekki verið beitt í áratugi. En þar segir:
„Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.
Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.
Sömuleiðis geta níu þingmenn krafist þess að greidd séu atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þingmanns takmarkaður. … 2)
Nú hefur verið samþykktur takmarkaður umræðutími eða ákveðinn ræðutími hvers þingmanns og skal þá forseti skipta umræðutímanum í heild sem jafnast á milli fylgismanna og andstæðinga máls þess sem er til umræðu, án þess að hann sé bundinn við í hvaða röð þingmenn hafa kvatt sér hljóðs, eða milli flokka ef hentara þykir.“
Þann 27. Júní var settur á fót undirskriftalisti til þess að þrýsta á stjórnvöld að stöðva málþófið. Hafa á sjöunda hundrað skrifað undir hann þegar þetta er skrifað.
„Við undirrituð skorum á Alþingismenn að stöðva hið snarasta það málþóf sem verið hefur í gangi í þinginu og samþykkja veiðigjaldafrumvarpið,“ segir í færslu með undirskriftalistanum sem hægt er að skrifa undir hér.
Einnig hafa fjölmargir hvatt til þess á samfélagsmiðlum að málþófið verði stöðvað.
„Það hlýtur að vera meðal forgangsverkefna núverandi þingmeirihluta að koma Alþingi í starfhæft form. Ég sé ekki að það verði gert öðruvísi en með því að virkja 71. grein þingskapalaga, sem veitir forseta þingsins heimild til að takmarka ræðutíma,“ segir Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur. Málþóf sé niðurlægjandi og í því felist að minnihlutaflokkarnir taki sér vald yfir þingstörfum sem þeir hafi ekki.
Egill Helgason, fjölmiðlamaður tekur undir með færslu Guðmundar Andra.
„Rétt hjá Andra. Málþóf er nefnilega niðurlægjandi fyrir þann sem tekur þátt í því. Afskræming umræðu,“ segir Egill.
Það gerir líka Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.
„Vinnubrögðin á Alþingi eru til fullkominnar skammar. Ég deili hér pistli frá Guðmundi Andra, sem bjó árið 2019 til nýyrðið „orðbeldi“ um það sem þá gekk á í sölum löggjafarsamkundunnar. Það á ekki síður við í dag,“ segir hann.
Illugi Jökulsson, blaðamaður, hvetur einnig til þess að 71. greininni verði beitt til að stöðva málþófið.
„Er eitthvað ólýðræðislegt við þetta? Nei, þá væri það ekki í lögum. Það sem er ólýðræðislegt er að minnihluti Alþingis stöðvi þingstörf með fáránlegu gjammi fyrir hagsmunaaðila úti í bæ,“ segir Illugi.