Rósa Ólöf Ólafíudótir, systir Lalla Johns, hefur skrifað sögu bróður síns og safnar núna fyrir útgáfu verksins á Karolina Fund.
Rósa ræddi um útgáfuna á Bylgjunni í morgun.
„Lalli tók af mér loforð og bað mig um að skrifa söguna sína. Það er rúmt ár síðan ég byrjaði. Hann var alltaf að spyrja: Ertu byrjuð? Ertu byrjuð? Svo dó hann núna. Þá ákvað ég að ýta þessu úr vör.“
Rósa segir að Lalli hafi viljað segja söguna alla. „Hann var nánast alinn upp af ríkinu og var á öllum uppeldisstofnunum sem til voru á sínum tíma. Ég veit að sagan hans Lalla er ekki einsdæmi. Það eru margir Lallar.“
Lalli var einn af drengjunum sem vistaðir voru á Breiðuvík, illræmdu upptökuheimili, og hafði sú vist djúpstæð áhrif á hann.
„Breiðavík hafði djúp áhrif. Það varð til þess að hann missti sitt sjálf en líka þegar umræðan kom upp þá breytti það lífi hans líka. Við erum ennþá í dag með þessa stráka sem gera eitthvað af sér og tekið mjög hart á þeim. Þeir eru settir inn í fangelsi ungir, 16 ára gamlir. Sagan endurtekur sig. Það er eins og það hafi ekki orðið nein hugarfarsbreyting. Við sáum í sjónvarpinu snemma í vor að það eru ennþá klefar í Hafnarfirðinum þar sem börn eru lokuð inni. Það er engin betrun.
Það sem hafði ein dýpstu áhrifin á hann og gerði hann einan var að tengslin við fjölskylduna voru rofin. Hann var sendur aftur og aftur í burtu frá fjölskyldunni og hann upplifði sig einan. Og vinir hans voru þeir sem höfðu verið á Breiðuvík, sem tilheyrðu götunni. Þeir voru eins og fjölskylda hans. Þar tilheyrði hann og það var það sem var svo erfitt að slíta sig frá. Hann var svo heppinn að komast inn á Draumasetrið, sem er áfangaheimili. Þar gat hann fundið þessa samstöðu áfram.“
Lalli, sem lést í vor, var edrú síðustu 20 ár ævinnar. Það var gífurleg breyting til batnaðar. „Ofsalega gott. Ég hafði fylgt honum í gegnum þetta allt, þegar hann strauk úr fangelsi kom hann til mín, þegar hann var illa staddur þá kom hann til mín og það var bara svo gott og mikill léttir að vita að hann var að reyna að rétta sig við, reyna að snúa við, af því hann sagði alltaf; Elsku systir. Eftir að hann var edrú þá hittum við konur sem föðmuðu Lalla úti á götu vegna þess að hann hafði staðið með þeim þegar þær stóðu frammi fyrir ofbeldi í undirheimum Reykjavíkur.“
Rósa segir enn fremur: „Sagan er ekki bara tragísk. Lalli var alltaf svo bjartsýnn, hann var alltaf hress. Sagan er í anda þess. Þó að hún sé átakanleg þá er hún samt ekki neinn hágrátur.“