fbpx
Miðvikudagur 28.maí 2025
Fréttir

Samsæriskenningar um dauða Marilyn lifa enn góðu lífi – „Þetta er kannski hættulegasta kona tuttugustu aldar“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 26. maí 2025 13:30

Marilyn Monroe

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nýjasta þætti hlaðvarpsins Skuggavaldið er fjallað um leikkonuna Marilyn Monroe, og þá áratugalöngu spurningu um hvort hún hafi verið myrt eða ekki. Og hafi hún verið myrt, hver var þá gerandinn? Kennedy-bræður, Mafían, CIA?

Norma Jeane Mortenson fæddist 1. júní 1926. Móðir hennar glímdi við alvarleg geðræn veikindi og hún þekkti aldrei föður sinn. Norma flakkaði á milli ellefu fósturheimila og munaðarleysingjahæla, þar sem hún mátti þola margs konar ofbeldi. 16 ára gömul gifti hún sig í fyrsta sinn. Norma tók síðar upp nafnið Marilyn Monroe þegar Hollywood bankaði á dyrnar og gaf henni tækifæri fyrir framan myndavélarnar. Sagan eftir það er flestum kunn, Marilyn er eitt þekktasta kyntákn kvikmyndasögunnar.

Eiríkur Bergmann og Hulda Þórisdóttir, stjórnendur Skuggavaldið mættu í Bítið á Bylgjunni í morgun til að ræða þáttinn um Marilyn.

„Það sem er svo merkilegt við Marilyn Monroe, hún er enn í dag íkon. Þú veist, nýjar kynslóðir og kannski jafnvel fólk sem hefur ekkert séð jafnvel neina mynd með henni. En náttúrlega líka eins og við förum rækilega yfir í Skuggavaldinu, það sem gerir söguna hennar svo ótrúlega merkilega er það hvað undir þessum mikla glamúr, þessari ótrúlegu fegurð og sjarma og kynþokka er alveg hreint ótrúlega tragísk saga,“ segir Hulda.

„Það sem þú kallar hjónadjöful kalla ég brotna konu sem var alla tíð í leit að ást,“ segir Hulda þegar Sindri þáttastjórnandi kallar Marilyn hjónadjöful. „Hún var náttúrlega með gríðarlega þörf fyrir viðurkenningu og ást karlmanna. Það er auðvitað alveg hárrétt en maður þarf ekki að vera með doktorsgráðu í sálfræði til þess að sjá; brotin kona.“

Flæktist í alls konar valdaheima

Marilyn var fyrsta konan í Hollywood til að stofna eigið kvikmyndaframleiðslufyrirtæki, sökum þess að hún var endalaust í þeirri baráttu að reyna að hafa stjórn á eigin ferli og eigin ímynd. Umhverfið var gríðarlega karllægt á þessum tíma. Draumaverksmiðjunni var stjórnað af körlum eins og Hulda rekur.

„Það sem við erum að gera, við erum að reyna að fjalla um samsæriskenningar frá öllum hliðum. Og það sem er áhugavert við Marilyn Monroe er að hún flækist inn í alls konar svona valdaheima líka og hefur örlagarík áhrif. Hún heldur við báða Kennedy bræður, John F. Kennedy og Robert Kennedy að því er sagt er. Og ég held að liggi nú nokkuð vel fyrir að þetta hafi nú verið einhver rómantík sem hafi átt sér stað á milli þeirra. Þeir hafna henni. Það eru sko flökkusögur um að þeir hafi svona í einhverju koddahjali ljóstrað upp um ríkisleyndarmál, áætlanir um að myrða Fidel Castro, kjarnorkuáætlanir og hitt og þetta. Og hún hafi ætlað sem sagt að ljóstra upp um þá. Og ein samsæriskenningin er þá sú að þeir hafi verið fyrri til og komið henni fyrir kattarnef,“ segir Eiríkur.

Samsæriskenningarnar eru margar

Samsæriskenningarnar eru þó af mjög mörgum toga og margir góðkunningjar skuggavaldsins í hópi illvirkja eru kallaðir til, meðal annars mafían. Fólk í lífi Marilyn var í og nátengt mafíunni. „Það eru staðfestar frásagnir um það að hún hafi verið í samkvæmum á á vegum mafíunnar þar sem bara farið var illa með hana. Eiginmaður hennar Arthur Miller var sósíalisti. Og það eru sögusagnir um að annaðhvort kommúnistar hafi myrt hana eða hún hafi verið myrt vegna þess að hún sé kommúnisti,“ segir Eiríkur.

Eiríkur og Hulda segja mörgum spurningum ósvarað. Marilyn hafi verið flækt í hreint ótrúlegt tengslanet frægra karla sem hún laðaðist að og þeir að henni. Margir áttu ýmislegt undir því að hún færi nú ekkert að ljóstra neinu upp. 

„Svo er ein samsæriskenningin eftir sem er langleiðinlegust en kannski trúverðugust. Hún var undir höndum lækna sem voru að reyna að halda henni stöðugri og hún var djúpt sokkin í lyfjanotkun bæði í uppers og downers. Svo þurfti hún svefnlyf til að fara að sofa og það er talað um að þeir hafi mögulega óvart gefið henni of stóran lyfjaskammt. Og hún hafi dáið af stórum lyfjaskammti og samsærið felist í því að þeir séu að reyna að hylma yfir það, sína vangetu,“ segir Hulda.

Samsæriskenningar eru þó fleiri eins og kemur fram í viðtalinu og þættinum.

„Þetta er svona dæmi um mál þar sem við ekki bara vitum ekki nákvæmlega hvað gerðist. Og þannig er það nú bara í lífinu og tilverunni að það er bara margt sem gerist sem er ekki hægt að skýra. Og þá koma til skjalanna samsæriskenningasmiðir og fara að framleiða skýringar á því sem gerðist, og þá oft svona langsóttar,“ segir Eiríkur.

Hulda bætir við að í grunninn snúist þetta mikið um hver afstaða fólks sé til yfirvalda.

Lést ein án vandamanna og vina

Marilyn dó ein, barnlaus, án fjölskyldu og vina. Fyrrum eiginmaður hennar, Joe DiMaggio, sá  um útförina.

Sindri segir að í dag væri Marilyn risi á samfélagsmiðlum. Eiríkur bendir á að tíminn hafi verið allt annar, stjörnur þessa tíma voru þannig að allur heimurinn þekkti þær.

„Núna eru miklu fleiri á sviðinu og athyglin dreifist miklu víðar. Þetta er hátindur mónómiðlunarinnar. Allir sjá það sama. Það sáu allir þessar bíómyndir, skilurðu. Núna sjá ekki allir sömu myndirnar þannig að þetta er stjarna af allt annarri stærðargráðu heldur en við þekkjum í dag.

Kannski er það að fjalla um Marilyn Monroe ekki algjörlega augljóst en eigi að síður eru öll þessi element líka þarna og við förum rækilega yfir það hvernig hún flækist inn í valdið, hún er bara komin inn í innstu kreðsur og háborð stjórnmálanna og með þessa ofboðslega flæktu og brotnu sögu þannig að hún verður auðvitað stórhættuleg. Þetta er kannski hættulegasta kona tuttugustu aldar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Hnífstunga á Húsavík – Einn með talsverða áverka

Hnífstunga á Húsavík – Einn með talsverða áverka
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Sakar bæjarstjóra um að kasta íþróttafélögum fyrir rútuna til að bjarga andliti – „Ekki er það nú stórmannlega gert“

Sakar bæjarstjóra um að kasta íþróttafélögum fyrir rútuna til að bjarga andliti – „Ekki er það nú stórmannlega gert“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Helga Magnúsi boðinn flutningur í starfi – Embætti sem ekki hefur verið skipað frá 2010

Helga Magnúsi boðinn flutningur í starfi – Embætti sem ekki hefur verið skipað frá 2010
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Flugvél nauðlenti á Suðurlandsvegi í gærkvöldi

Flugvél nauðlenti á Suðurlandsvegi í gærkvöldi
Fréttir
Í gær

Halla lætur sérhagsmunaöflin finna fyrir því – Leigan fór úr 260 þúsund krónum í 430 þúsund

Halla lætur sérhagsmunaöflin finna fyrir því – Leigan fór úr 260 þúsund krónum í 430 þúsund
Fréttir
Í gær

Ásthildur snýr aftur í dag

Ásthildur snýr aftur í dag
Fréttir
Í gær

Rottur á ferli í Grafarvogi – Hafa sést klifra upp veggi fjölbýlishúsa

Rottur á ferli í Grafarvogi – Hafa sést klifra upp veggi fjölbýlishúsa
Fréttir
Í gær

Sindri undrast hörku yfirvalda í garð Oscars – „Þá er þetta bara skrýtið“

Sindri undrast hörku yfirvalda í garð Oscars – „Þá er þetta bara skrýtið“