„Ég er mjög hlynntur þéttingu byggðar, tel hana nauðsynlega – þó með þeim formerkjum að ekki sé gott að byggja hátt á Íslandi vegna lágrar sólarstöðu. Það sem sést á myndinni hér fyrir neðan held ég að hljóti að teljast fullmikið af því góða,“ sagði Egill og birti mynd af nýbyggingum í Ánanaustum og á Vesturgötu.
Egill benti á að það væri ekki einungis við borgarstjórnina í Reykjavík að sakast – hún leyfði þetta – því mjög svipað væri uppi á teningnum fyrir ofan Smáralindina í Kópavoginum.
„Það er bókstaflega verið að skítnýta hvern rúmmetra sem býðst til að selja hann – á kostnað þokka, þæginda, birtu og umhverfis. Varla pláss fyrir gangstéttir.“
Margir tóku undir með Agli, til dæmis Ólína Þorvarðardóttir fyrrverandi þingkona. „Þétting í þessum mæli þjónar ekki lífsgæðum og ekki fegurðarsjónarmiðum. Hún þjónar aðallega gróðasjónarmiðum,” sagði hún.
Aðrir tóku í svipaðan streng: „Þetta er afleiðing svonefnds verktakaræðis,“ sagði einn og annar sagði: „Þetta er of þétt. Fólk fer að byrja saman á milli íbúða. Svo fylgja þessum íbúðum engin bílastæði og fólk beðið að leggja hjá Bónus. Alveg snargalið dæmi. Myndi ekki vilja búa þarna”
Ekki eru þó allir á því að þetta sé óheillaþróun. Hallgrímur Helgason rithöfundur er einn af þeim. „I love it! Mun vandaðri hús, að sjá, en annarsstaðar. Frábær viðbót við Grandann. Skil ekki þessa skúrþörf í okkur Íslendingum.”