Ferðamaður sem leigði bíl er ósáttur við himinháa rukkun sem hann fékk vegna skemmdar sem varla sést. Telja sumir að bílaleigan muni jafn vel ekki láta laga skemmdina þrátt fyrir borgun.
Erlendur ferðamaður er miður sín eftir að hafa fengið rukkun upp á 300 þúsund krónur fyrir örlitla skemmd sem fannst á hægri framhurð camper bílaleigubíls.
„Þessi litla beygla er varla sýnileg. Getið þið heimamenn sagt mér hvað það kostar að laga þetta á Íslandi?“ spyr hann í færslu á samfélagsmiðlinum Reddit og birtir mynd af framhurðinni umræddu.
Bent er á að viðkomandi beygla orsakast af vindi. Það er að hurðin hafi skellst aftur í hviðu. Þetta eru atvik sem séu ekki tryggð hjá bílaleigum.
„Svona skemmdir eru sérstakt fyrirbrigði í bílaleigubransanum á Íslandi þannig að þetta er ekki einstakt í þínu tilfelli. Ég myndi ekki kalla þetta svindl en þetta er mjög ósanngjarnt,“ segir einn netverji.
Bendir hann að hægt sé að biðja um skýrslu sem sýnir heildarkostnaðinn við viðgerðina, það er svokallaða CABAS skýrslu.
„Hins vegar ef þú færð þessa skýrslu þá þýðir það ekki endilega að bílaleigan muni í raun láta framkvæma viðgerðina,“ segir hann. „Þeir geta haldið áfram að leigja út bílinn og taka þennan 300 þúsund kall upp í minnkað virði þegar þeir selja hann.“
Sumir benda hins vegar á að um sé að ræða skemmd í hurð sem þýði að hugsanlega sjáist ekki allt saman. Það er að það gæti verið skemmdir innan í hurðinni.
Einn viðgerðarmaður hjá bílaleigu leggur orð í belg. Bendir hann á að CABAS skýrslan sýni hvað það kosti að koma bíl aftur í „verksmiðju ástand.“
„Í flestum tilfellum er hægt að laga hluti á miklu ódýrari hátt en gert er en þegar kemur að endursölu þá myndi bílaleigan á endanum tapa peningum af því bíllinn er ekki í verksmiðju ástandi,“ segir hann.
Fleiri eru hins vegar sammála um að rukkunin sé mjög há. En að Ísland sé mjög dýrt land. „Ég hef fengið smáskemmdir á bílhurðir í nokkur skipti og 300 þúsund til að laga þetta virðist ekki vera út úr korti því miður,“ segir einn. „Vinnan er mjög dýr á Íslandi. Við erum velferðarríki. Því miður,“ segir annar.