Séra Valgeir Ástráðsson, fyrrverandi sóknarprestur á Eyrarbakka, kemur séra Friðriki Friðrikssyni til varnar. Segir hann þau hafa hæst sem voru ekki fædd þegar Friðrik dó.
„„Að vernda börn er sjálfsögð skylda, þar ber að standa um traustan vörð.“ Frelsarinn benti á það, sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín … og hann blessaði þau.“ Það vitum við kristið fólk að þeirri skipun ber að hlýða og framkvæma,“ segir Valgeir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
„Við sem þekktum sr. Friðrik Friðriksson vitum að hann sinnti því og skildi eftir meiri blessun en aðrir. Hann var hlýr í framkomu, einlægur, heilsaði gjarnan með faðmlagi, sem var almennt á hans tíma og allir stunduðu, öllum var það eðlilegt. Við sem þekktum hann, samherjar og vinir hans aðrir, vissum að hann var heiðarlegur í öllu sem hann kom nálægt. Hann hafði viðurnefnið „Friðrik barnavinurinn“.“
Eftir að sagnfræðingurinn Guðmundur Magnússon birti upplýsingar um ásakanir gegn Friðriki í ævisögu hans árið 2023 hefur verið mikil umræða um „óeðlilegan áhuga“ hans á ungum drengjum. Meðal annars frásögn af því að hann hafi þuklað á kynfærum á 10 ára dreng. Orsakaði málið að styttan af Friðriki þar sem hann sést sitja með ungum dreng var tekin niður á Lækjargötu.
Ýmsir hafa komið Friðriki til varnar, meðal annars Jón Magnússon og Halldór Gunnarsson. Valgeir bætist nú í þann hóp.
„Nú er svo, að samfélagið er verulega opið fyrir fréttum um ásakanir á fólk. Kannski eru einhverjar sannar, sem þarf að taka á, en alls ekki á verksviði fréttamennsku eins og virðist vera algengast nú. Margir saklausir einstaklingar hafa orðið fyrir hræðilegum ásökunum, misst mannorð sitt og störf, án forsendu. Til eru þeir menn sem hafa leitað til æðstu dómstóla og unnið. Það hefur ekki verið hrópað eða bent á,“ segir Valgeir í greininni.
Vísar hann til þess að fólk hafi haft um Friðrik orð sem var ekki fætt þegar hann lést.
„Ágæt annars góð útvarpskona nefndi í umræðunni „barnaníðing“. Sú fæddist 28 árum eftir að sr. Friðrik dó. Önnur mæt kona sagði að lengi hefði verið geymt eitthvað gruggugt. Sú er fædd 12 árum eftir dauða sr. Friðriks,“ segir Valgeir. „Það er vert að vanda betur heimildir. Þau sem hafa hæst í árásum á sr. Friðrik eru fólk sem var ekki fætt þegar hann dó. En við erum nokkrir eftir enn þá sem þekktum hann.“
Bendir Valgeir á að hann hafi alist upp með Friðriki, faðir hans og afi hafi verið nánir vinir Friðriks. Mynd sé til af því þegar Friðrik haldi á honum þriggja ára í Vatnaskógi. Sú mynd hafi farið víða og telur Valgeir það mikinn heiður.
„Ég var á fermingaraldri þegar ég var settur til þess að lesa blaðið fyrir hann. Þess vegna var ég oft langar stundir með honum einum, allar minnisstæðar. Hann var sannarlega fjarri því að vera sá maður sem ausinn er auri núna af fólki sem þekkti hann ekkert. Hann var einstakt prúðmenni, jafnt við fullorðna sem börn,“ segir Valgeir.