Í skeyti sem lögregla birti á Facebook-síðu sinni kemur fram að margir hafi verið sektaðir fyrir vikið, en í grófustu brotunum undanfarna daga eigi ökumenn yfir höfði sér sviptingu ökuréttinda.
„Einn þeirra er 17 ára piltur sem í gær ók á 160 km hraða á vegi þar sem leyfður hámarkshraði er 80. Annar, karlmaður á þrítugsaldri, ók á 162 km hraða á sama vegi í fyrradag, en báðir eiga yfir höfði sér sviptingu ökuréttinda í þrjá mánuði, auk sektar að upphæð 250 þúsund kr. hvor. 19 ára piltur fær sömuleiðis sviptingu ökuréttinda í þrjá mánuði, en bíll hans mældist á 135 km hraða á Miklubraut, við Hvassaleiti, á laugardag. Þar er leyfður hámarkshraði 60, en auk sviptingar fær ökumaðurinn 180 þúsund kr. sekt.“
Í skeyti lögreglu kemur fram að sektarbókin hafi enn fremur farið á loft við fleiri tilefni síðustu dagana. Má þar nefna ökumenn sem óku gegn rauðu ljósi, einstefnu og tóku U-beygju þar sem það er bannað.
„Farsímanotkun ökumanna er heldur ekki til fyrirmyndar, en í gær voru tíu sektaðir fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar og fær hver þeirra 40 þúsund kr. sekt. Að endingu má geta þess að frá því að á föstudag hafa þrjátíu ökumenn verið teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur í umdæminu, en slíkur akstur er mikið áhyggjuefni. Ökumenn eru minntir á að virða umferðarlög, alltaf og alls staðar. Ekki bara til að forðast óþarfa útgjöld, heldur til að stuðla að umferðaröryggi allra.“