Anna Vilhjálmsdóttir söngkona er látin, 79 ára að aldri. Anna hafði glímt við veikindi á síðustu árum.
Eins og segir á tónlistarvefnum Glatkistunni var Anna ein af dáðustu dægurlagasöngkonum sjöunda áratugarins á Íslandi.
Aðeins 16 ára gömul hóf hún að syngja með J.E. Kvintettnum en síðar söng hún með Hljómsveit Gunnars Ormslev, Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar, Hljómsveit Svavars Gests og fleirum. Árið 1969 stofnaði hún eigin hljómsveit en fátítt var á þeim tíma að hljómsveitir væru nefndar eftir konum.
Anna bjó um tíma í Bandaríkjunum eftir að hún kynntist bandarískum manni á Vellinum. Hún sneri aftur til Íslands undir lok áttunda áratugarins og söng þá með hljómsveitum á borð við Galabandinu, Flækingunum og Thaliu. Hún gaf einnig út eina sólóplötu, árið 1991, sem vakti athygli, sér í lagi lagið Fráskilin að vestan.