Samtökin Blaðamenn án landamæra hafa gefið út árlega skýrslu sína um fjölmiðlafrelsi í heiminum og raðað löndum heims á lista eftir því hversu mikið fjölmiðlafrelsi er í hverju landi fyrir sig. Ísland stendur nánast í stað á listanum frá því á síðasta ári og er neðst allra Norðurlanda. Í skýrslunni eru reifuð fjölmörg atriði sem draga úr frelsi fjölmiðla hér á landi en það er einna helst nefnd til sögunnar bág fjárhagsleg staða margra þeirra og þrýstingur á fjölmiðla frá utanaðkomandi aðilum.
Ísland er í 17. sæti listans í ár en var í 18. sæti í fyrra og fær nánast sömu heildareinkunn fyrir stöðu fjölmiðlafrelsis og á síðasta ári.
Ísland er eins og áður segir neðst Norðurlandanna á listanum. Noregur er í efsta sæti, Svíþjóð í fjórða, Finnland í fimmta og Danmörk í sjötta. Ljóst er því að Ísland stendur frændþjóðunum nokkuð að baki þegar kemur að frelsi fjölmiðla.
Í þeim hluta skýrslunnar er snýr að Íslandi segir að hér á landi njóti fjölmiðlar ríkrar lagalegrar verndar og töluverðs trausts almennings. Í rannsókn OECD sem birt var á síðasta ári kom raunar fram að traust til fjölmiðla mælist mikið hér á landi í samanburði við önnur OECD-ríki.
Í skýrslu Blaðamanna án landamæra segir hins vegar að á móti komi að frelsi fjölmiðla sé ógnað af smæð íslensks markaðar og af hagsmunaöflum á sviði stjórnmála og atvinnulífs, einkum úr sjávarútvegi.
Ekki er þó vísað til ákveðinna fjölmiðla í þessu samhengi og raunar er RÚV eini íslenski fjölmiðilinn sem nefndur er á nafn í skýrslunni. Eins og flestir Íslendingar ættu að vita eru hagsmunaaðilar í sjávarútvegi helstu eigendur Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi tók nýlega sæti í stjórn Sýnar.
Skýrsluhöfundar vilja meina hins vegar að fjölmiðlar sem starfi á landsvísu njóti almennt frelsis en staðbundnir fjölmiðlar séu viðkvæmari fyrir þrýstingi frá yfirvöldum á viðkomandi stað og fyrirtækjum. Hins vegar hafi verið viðhöfð á Alþingi á undanförnum árum harkaleg gagnrýni á störf fjölmiðla en sumir fjölmiðlamenn telji þetta fela í sér pólitískan þrýsting. Engin sérstök dæmi eru þó tiltekin um þetta.
Þegar kemur að lagalegri umgjörð utan um störf fjölmiðla þá segir í skýrslunni að hún sé almennt góð á Íslandi. Samkvæmt íslenskum lögum eigi að ríkja fjölmiðlafrelsi og almenningur eigi rétt á upplýsingum. Það hafi þó gengið misvel að framfylgja þessu og er þá vísað í að aðgangur fjölmiðla að Grindavík hafi verið takmarkaður þegar bærinn var rýmdur í nóvember 2023 vegna náttúruhamfara. Fréttaljósmyndarinn Kjartan Þorbjörnsson, yfirleitt kallaður Golli, gagnrýndi einmitt nýlega Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóra á Suðurnesjum fyrir að meina fjölmiðlamönnum um aðgang að bænum á meðan rýmingu stóð.
Loks segir í skýrslunni um hina lagalegu umgjörð að það sem dragi hana niður sé ströng meiðyrðalöggjöf og að enn sé ólöglegt að móðga erlend ríki.
Margoft hefur verið rætt um króníska fjárhagserfiðleika íslenskra fjölmiðla, sérstaklega einkarekinna, og þeirra er sérstaklega getið í skýrslunni, Fram kemur að dregið hafi úr auglýsingatekjum en skýringa er ekki getið. Minnst er sömuleiðis á tilraunir íslenskra stjórnvalda til að bæta úr þessu með styrkjum til einkarekinna fjölmiðla sem hafi verið gagnrýndir á þeim grunni að langmest renni til stærstu fjölmiðlafyrirtækjanna og auki þar með hættu á einsleitni á fjölmiðlamarkaði.
Því næst er vísað á ný til þrýstings frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi sem ógn við fjölmiðlafrelsi. Stór sjávarútvegsfyrirtæki eigi fjölmiðla sem ýti undir spurningar um hagsmunaárekstra. Vísað er til þess að blaðamenn sem fjölluðu um meinta spillingu í Namibíu er sneri að stóru íslensku sjávarútvegsfyrirtæki hafi sætt lögreglurannsóknum og rógsherferð. Skýrsluhöfundar nefna engin nöfn en eins og áður segir er Morgunblaðið stærsti fjölmiðillinn sem sjávarútvegfyrirtæki eiga og umrætt fyrirtæki sem bendlað hefur verið við spillingu í Namibíu er Samherji.
Að lokum segja skýrsluhöfundar að íslenskir fjölmiðlamenn séu almennt ekki í hættu á að verða fyrir líkamlegu ofbeldi en tíðni hótana í garð kvenkyns fréttamanna hafi farið vaxandi.
Valgerður Anna Jóhannsdóttir dósent í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands segir í samtali við RÚV skýrsluna einfaldlega sýna fram á að staða íslenskra fjölmiðla sé óásættanleg og bregðast þurfi við.