fbpx
Sunnudagur 10.nóvember 2024
Fréttir

Sigurbjörg og Árni bera hvort annað þungum sökum: „Uppákoma þín hefur meitt æru mína og föður míns heitins“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 29. september 2024 11:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mál sem varðar leigu á óíbúðarhæfu húsnæði að Austurgötu 10 í Hafnarfirði liggur núna fyrir kærunefnd húsamála sem mun á næstunni taka afstöðu til kæru leigjandans og leigusalans í málinu.

Það vakti landsathygli þegar Sigurbjörg Hlöðversdóttir steig fram í fréttum Stöðvar 2 þann 12. mars síðastliðinn og lýsti skelfilegum aðstæðum sínum í húsnæði sem hún leigði af Árna Stefáni Árnasyni lögfræðingi. Sigurbjörg hafði leigt íbúðina frá því í desember 2023 og greitt 200 þúsund krónur á mánuði í húsaleigu. Hún sagði að þegar hún hafi flutt inn hafi Árni lofað því að gera ýmsar úrbætur en hafi ekki staðið við það.

Innlit Stöðvar 2 leiddi í ljós afar bágborið ástand íbúðarinnar. „Víða má sjá rafmagnsvíra standa út í loft, sag má finna á ýmsum stöðum og í svefnherberginu vantar hluta af gólfinu,“ sagði í fréttinni en auk þess var greint frá því að gler passaði ekki í svefnherbergisgluggann svo rigndi og snjóaði inn um hann, að baðherbergið liti út eins og ruslakompa og leigjandinn þyrfti að sitja til að baða sig. Sag var út um allt í íbúðinni, vaskur var ekki festur við vaskborð í eldhúsinu og vaskborðið var í raun hurð með söguðu gati í. Einnig kom fram að Sigurbjörg hafði miklar áhyggjur af eldhættu vegna ástands rafmagns í íbúðinni, en innstungur voru margar hlífðarlausar í íbúðinni og rafmagnsvírar stóðu út í loft.

Upplifun fréttamanns Stöðvar 2 á aðstæðum var sú að að húsið virtist vera við það að hrynja.

Árni brást illa við þessari umfjöllun og sendi Sigurbjörgu tölvupóst þar sem leigusamningnum var sagt upp en Sigurbjörgu gefinn kostur á áframhaldandi leigu ef hún bæðist afsökunar í fjölmiðlum. Í tölvupóstinum segir meðal annars:

„Með óvæntri, óvæginni og ósanngjarnri upp á komu þinni í gær hefur þú sett okkur bæði í erfiða stöðu. – Þó einkum þig – Engu að síður er afleiðingin sú að þú auglýstir Austurgötu 10 rækilega á landsvísu. Austurgata 10 er friðað timburhús frá 1913 og hefur hlotið sérstaka viðurkenningu Minjastofnunar ásamt fleiri húsum á Austurgötunni fyrir minjagildi sitt. Upp á koma þín hefur meitt æru mín og föður míns heitins sem var með lögmansstarfsemi í áratugi í húsnæðinu og flestir Hafnfirðingar þekkja af einu góðu.

Í kjölfarið á auglýsingu þinni hefur fjöldi manns, áhugasamra leigjenda og kaupenda haft samband við mig og hef ég ákveðið að hlusta á kalla þeirra nema þú fallist á lið 2.

Í ljósi þess að að ekki er í gildi gildur leigusamningur segi ég þér upp leigu á húsnæðinu frá þeim tíma sem þessi póstur er skrifaður og bið þig að rýma það eigi síðar en í fyrstu viku apríl mánaðar. Lendir þú í þrengingum við að finna annað húsnæði er þér heimilt, á sömu kjörum og áður að vera í húsnæðinu þangað til þú hefur fundið þér annan samastað.

2. Ég gef þér líka kost á eftirfarandi.

2.1 að þú biðjist opinberlega afsökunar á ummælum þínum og birtir þá afsökun á vísir.is og dv.is á grundvelli þess að eftir allt sé um misskilning að ræða af þinni hálfu í samskiptum okkar, sem er hið eina sanna og þú veist ágætlega. Vísast um það í mynd sem fylgir tölvupósti þessum.“

„Ég læt engan komast upp með að ljúga upp á mig“

Sigurbjörg flutti út úr húsnæðinu fyrir lok apríl og bjó um tíma í sumarbústað uns hún fékk leigt í mannsæmandi leiguíbúð. Sigurbjörg og Árni kærðu hvort annað til kærunefndar húsamála í vor en nefndin hefur verið í sambandi við þau síðustu daga og kallað eftir frekari viðbrögðum.

Ekki er hægt að segja að ágreiningur þeirra Sigurbjargar og Árna fyrir úrskurðarnefndinni sé stórbrotinn. Árni krefur Sigurbjörgu um 500 þúsund krónur í meinta vangoldna leigu en Sigurbjörg krefst þess að krafa Árna verði felld niður. Auk þess krefur hún hann um útlagðan kostnað vegna úttektar rafvirkja og rafstöðvar frá Byko. Samanlagt er þessi kostnaður aðeins 23 þúsund krónur.

Sigurbjörg segir Árna fara með hreinar lygar er hann heldur því fram að hún hafi ekki staðið í skilum með leigu. Hann segir hana síðast hafa greitt leigu fyrir febrúar en hafi búið í íbúðinni fram til 29. apríl. Sigurbjörg hefur hins vegar sent DV skjáskot af kvittun sem sýnir greiðslu hennar til Árna vegna leigu fyrir marsmánuð. Hún segist hins vegar ekki hafa greitt fyrir aprílmánuð þar sem Árni tók þá af henni rafmagn og neitaði að laga stíflu í klósettinu. Auk þess hafi hún dregið útlagðan kostnað frá einhverju af febrúarleigu samkvæmt samkomulagi þeirra. Krafa Árna er tilkomin af fullyrðingum þess efnis að leiga fyrir mars og apríl sé ógreidd og vantað hafi upp á febrúarleigu.

„Ég læt engan komast upp með að ljúga upp á mig,“ segir Sigurbjörg í samtali við DV. „Hann heldur því fram að ég hafi stíflað klósettið viljandi en staðreyndin er sú að allar lagnir þarna eru ónýtar. Eins heldur hann því fram að ég hafi skemmt baðherbergisvegginn með því að rífa frá málaðan þakpappa. Staðreyndin er sú að hann gerði það sjálfur og sagði mér að klára dæmið svo hann gæti flísalagt.“

Sigurbjörg er afar ósátt við samskiptin við Árna og sakar hann um ítrekuð ósannindi. „Hann reynir að láta mig líta út sem ótrúverðuga í augum kærunefndar þegar staðan er sú að hann hefur engin gögn í höndunum sem styðja hans málstað.“

Svaraði í löngu máli en vildi síðan ekkert láta hafa eftir sér

DV hefur gögn undir höndum sem sýna að Árni stendur við kröfu sína um að Sigurbjörg greiði honum 500 þúsund krónur í meinta vangoldna leigu. Sigurbjörg hefur á hinn bóginn sent DV skjáskot af kvittunum sem sýna greidda leigu fyrir febrúar og mars.

Er DV hafði samband við Árna vegna málsins svaraði hann fyrirspurnum fjölmiðilsins í nokkuð löngu máli og í nokkrum tölvupóstum. Hann sendi síðan DV lengri tölvupóst á laugardag þar sem hann fór yfir málið. Í öðrum pósti á laugardag lýsti hann því hins vegar yfir að hann vildi að ekkert yrði haft eftir sér í frétt DV um málið. Sagði hann fréttaflutning af málinu vera tilgangslausan enda væri deilan í umfjöllun opinbers úrskurðaraðila.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan mátti áframsenda áverkamyndir af Guðnýju – „Þarna var enn og aftur brotið á mér“

Lögreglan mátti áframsenda áverkamyndir af Guðnýju – „Þarna var enn og aftur brotið á mér“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ákærur gefnar út vegna samsæris íranskra stjórnvalda um að myrða Trump

Ákærur gefnar út vegna samsæris íranskra stjórnvalda um að myrða Trump
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Níelsson er látinn

Guðlaugur Níelsson er látinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nöturleg sjón mætti Einari í matvöruverslun: „Þetta var Íslendingur, allslaus, niðurbrotinn“

Nöturleg sjón mætti Einari í matvöruverslun: „Þetta var Íslendingur, allslaus, niðurbrotinn“