Í greininni fara þeir yfir stöðu öryggismála á heimsvísu og beina sjónunum sérstaklega að stríðinu í Úkraínu og átökum og deilum í Miðausturlöndum.
Segja þeir að „það sé mikilvægara en nokkru sinni áður“ að viðhalda núverandi pólitískri stefnu hvað varðar stuðning við Úkraínu í stríðinu gegn Rússlandi.
Þetta er í fyrsta sinn sem forstjórar þessara tveggja leyniþjónustustofnana skrifa grein saman í dagblað.
Í greininni leggja þeir áherslu á að Bretland og Bandaríkin muni styrkja og þróa samstarf ríkjanna á sviði leyniþjónustustarfsemi sem sé nú þegar mjög gott og byggi á 75 ára samvinnu ríkjanna á þessu sviði.
Segja þeir að leyniþjónustustofnanir ríkjanna standi saman í að takast á við árásarstefnu Rússlands og Vladímír Pútíns gagnvart Úkraínu. „Það er mikilvægara en nokkru sinni áður að halda núverandi stefnu í málefnum Úkraínu. Pútín mun ekki takast að gera út af við fullveldi Úkraínu og sjálfstæði,“ skrifa þeir og segja að þeir muni halda áfram að aðstoða Úkraínu með því að veita landinu upplýsingar sem stofnanir þeirra afla.
Forstjórarnir leggja einnig áherslu á það í greininni að áfram verði haldið að reyna að stöðva „hamslausa skemmdarverkastefnu Rússa í allri Evrópu“ og „miskunnarlausa misnotkun þeirra á tækni í því skyni að dreifa röngum upplýsingum“ sem eiga að reka fleyg í samstarf NATÓ-ríkjanna.