fbpx
Sunnudagur 10.nóvember 2024
Fréttir

Segir Albana vera búna að taka yfir íslenska fíkniefnamarkaðinn – „Þessi heimur er að harðna og færast lengra út í myrkrið“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 18. ágúst 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður sem þekkir vel til í fíkniefnaheiminum á Íslandi segir albanska aðila hafa að miklu leyti tekið yfir markaðinn á síðustu tveimur til þremur árum. Þróunin hafi hafist fyrr en verið mjög hröð á allra síðustu árum. Vegna starfshátta Albananna sé mjög erfitt fyrir lögreglu að átta sig á því hverjir standi að baki fíkniefnasölum og jafnvel Íslendingar sem eru öllum hnútum kunnugir í undirheimum viti það ekki heldur.

„Þessir menn hika ekki við að stinga fólk. Þessi heimur er að harðna og færast lengra út í myrkrið,“ segir maðurinn, en með myrkri á hann við þá hulu leyndar sem hvílir yfir albönsku aðilunum.

„Ég myndi segja að 80-90% af gras- og kókaínmarkaðnum á Íslandi sé stjórnað af Albönum,“ segir maðurinn en tekur fram að þar eigi hann við sölu. Hann hafi ekki upplýsingar um hlutföll varðandi innflutning.

DV spyr hvort um sé að ræða marga albanska hópa.

„Það er svo erfitt að gera sér grein fyrir því út af því hvernig þeir starfa. Það veit enginn hver stjórnar þessu. Venjulega nota þeir einhverja millimenn sem útvega fólk og þetta fólk vinnur bara í þrjá mánuði og fær mánaðarlaun. Kannski 2.000 evrur á mánuði. Svo er það bara farið og það koma einhverjir nýir. Þannig að í hvert einasta skipti sem lögreglan handtekur einn af þessum mönnum þá eru tveir sem bíða.“

Maðurinn segir ómögulegt að segja til um hvort höfuðpaurar þessara hópa búi hér á landi eða erlendis.

„Þeir eru aðallega á Telegram, þú getur spurt hvaða notanda sem er, ef þú reynir að nálgast efni þar þá er undantekningarlaust mættur einhver Albani. Ég get sagt þér sem dæmi um hversu öruggt þetta er fyrir þá, að einn albanski hópurinn sem byrjaði að selja gras 2018 er ennþá með sama notendanafn á Telegram og Signal, þeim hefur ekki einu sinni dottið í hug að skipta um. Þeim hefur ekki dottið í hug að breyta um nafn í sex ár.“

Maðurinn segir að Albanarnir hafi ekki náð amfetamínmarkaðnum, þar séu Austur-Evrópubúar stórtækastir.

Lögreglan færi Albönunum markaðinn á silfurfati

„Þetta er sama þróunin og í Svíþjóð, Bretlandi og Spáni. Albanarnir hafa tekið yfir markaðinn þar. Þessir menn svífast einskis. Ef þú lendir upp á kant við einhvern þá mæta bara 10-12 manns og ganga í skrokk á þér, þeir hika ekki við að stinga þig, það var náttúrulega morð hérna, Rauðagerðismálið.“

Í Rauðagerðismálinu skaut albanskur maður landa sinn til bana, með níu byssuskotum, fyrir utan heimili hins myrta í Rauðagerði. Morðinu var lýst sem aftöku.

„Ég held að lögreglan sé bara í sömu sporum og við varðandi það að þeir vita ekkert hverjir eru að stýra þessu. Okkur í undirheimunum líður bara eins og lögreglan sé að gefa Albönunum þetta á silfurfati. Af því þeir eru alltaf á eftir þeim sem þeir geta náð og í hvert skipti sem þeir taka einn hóp út þá fylla Albanar bara skarðið. Það gerðist t.d. um daginn þegar 30 kg af kannabis voru tekin. Þetta gat á markaðnum var bara fyllt samdægurs. Það eina sem lögreglan gerir með svona aðgerðum er að stækka markaðshludeild Albana.“

Maðurinn telur að tungumálaerfiðleikar og mikil leynd yfir albönskum millimönnum og höfuðpaurum fæli lögregluna frá því að leggja til atlögu við albanska aðila á markaðnum:

„Ég held að þeir séu ekki hræddir við þá þó að þetta séu rosalega ofbeldisfullir hópar, þeir hafa reyndar ekki þurft að sýna mikið ofbeldi á Íslandi því þeir hafa starfað óáreittir hér. En þeir sem lögreglan er kannski að rannsaka eru ekki á landinu nema í tvo til þrjá mánuði og þá taka aðrir við. Síðan bætast tungumálaörðugleikar við því enginn innan lögreglunnar kann albönsku.“

Maðurinn segir að á hinn bóginn sé t.d. góð pólskukunnátta innan lögreglunnar og  þess vegna hafi henni gengið mun betur að hafa hendur í hári pólskra aðila.

„Lögreglan vill frekar fara í eitthvað sem gerir henni kleift að sýna fram á skjótan árangur. Þess vegna nenna þeir ekki að eyða tíma og fjármunum í þetta. Mér finnst forgangsröðunin vera röng, þeir eru í rauninni að búa til hættulega mafíu á Íslandi með því að taka allt burtu sem heitir samkeppni. Albanarnir eru aldrei að fara að gefa þetta til baka án ofbeldis. Lögreglan gerir ástandið miklu verra með því að ráðast gegn íslenskum fíkniefnahópum. Neytendur væru til í að borga hærra verð bara til að þurfa ekki að versla við Albana. En það er ekkert annað í boði, af því lögreglan gengur fram með offorsi gegn íslenskum aðilum og þetta er ekki það stór markaður á Íslandi, þetta eru ekki margir aðilar, markaðurinn af því sem þeir eru að rannsaka er alltaf að minnka, Íslendingunum fækkar og það sem lögreglan einbeitir sér að, þ.e. íslenskir hópar, verður auðveldara viðfangs.“

DV spyr hvað hann vilji að lögreglan geri?

„Ég vil að lögreglan fari og skoði hvað er að gerast í löndunum í kringum okkur og reyni síðan að sporna við því að það verði eins hér á landi. Lögreglan í nágrannalöndunum er farin að sjá að þetta er stórt vandamál en sú umræða er ekki hafin hér. Kannski er andvaraleysi lögreglu gagnvart þessu að hluta til vegna þess að það eru engin átök á milli Albananna og heimamanna, það er ekkert stríð í gangi.“

Á lögreglan að láta íslenska aðila í friði?

DV varpar þessari spurningu fram til mannsins. Af tali hans má ráða að Albanir verði sterkari á markaðnum í hvert sinn sem íslenskur fíkniefnasöluhópur er tekinn í bakaríið af lögreglu. Maðurinn svarar þessu þannig:

„Mér finnst aðallega að þeir ættu að leggja meira púður í Albanana. Mér er alveg sama þó að þeir fari á eftir Íslendingum, en mér finnst bara vanta alllt púður í hitt, að farið sé gegn Albönum. Því þetta eru stór glæpasamtök, þessir menn eru ekki að taka yfir markaðinn hér, þeir eru búnir að því.“

Maðurinn segir að í nágrannaríkjum okkar þar sem Albanir séu atkvæðamiklir á fíkniefnamarkaðurinn hafi þessi heimur harðnað og ofbeldið aukist. „Þeim er líka alveg sama þó að þeir lendi í fangelsi, þeim finnst það bara fínt.“

Albanir vilja vinna með Albönum

DV spyr um samstarf Albana við Íslendinga í fíkniefnaheiminum og segir maðurinn að það sé vissulega fyrir hendi. Hins vegar: „Á meðan Albanir hafa hag af því þá vinna þeir með Íslendingum. Þeir vilja samt bara helst alltaf vinna með öðrum Albönum. Á endanum verða Íslendingar óþarfir. Og af því Albanir vilja alltaf vinna með Albönum og para sig saman, þá verður þetta að mafíu, en það er ekki mafíu í þessum gamla skilningi sem við þekkjum, þar sem grónar glæpafjölskyldur ráða ríkjum. Þvert á móti þá hefur enginn hugmynd um hver er að stjórna. Þess vegna virkar þetta svo vel hjá þeim og þess vegna er svo erfitt að rannsaka þetta.“

– – – –

DV sendi fyrirspurn á Grím Grímsson, yfirlögregluþjón á miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og reifaði helstu atriði sem hér koma fram. Greint verður frá svörum Gríms þegar þau berast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bíll Kristins brann til kaldra kola í Víðigerði – „Svo áttaði ég mig á því að ég var ekkert að fara að slökkva þetta“

Bíll Kristins brann til kaldra kola í Víðigerði – „Svo áttaði ég mig á því að ég var ekkert að fara að slökkva þetta“
Fréttir
Í gær

Sakaði verktaka um okur og fór í hart

Sakaði verktaka um okur og fór í hart
Fréttir
Í gær

Lögreglan mátti áframsenda áverkamyndir af Guðnýju – „Þarna var enn og aftur brotið á mér“

Lögreglan mátti áframsenda áverkamyndir af Guðnýju – „Þarna var enn og aftur brotið á mér“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hoggið á hnútinn í erfiðu máli í Kópavogi – Nágrannar mjög ósáttir

Hoggið á hnútinn í erfiðu máli í Kópavogi – Nágrannar mjög ósáttir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spændi upp lóð Síldarvinnslunnar í nótt – Fær nokkra klukkutíma til að gefa sig fram

Spændi upp lóð Síldarvinnslunnar í nótt – Fær nokkra klukkutíma til að gefa sig fram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Atli Viðar segir dóminn yfir Reyni ljúka ömurlegu tímabili í lífi hans – „Þarna er botninn. Að níðast á syrgjendum“

Atli Viðar segir dóminn yfir Reyni ljúka ömurlegu tímabili í lífi hans – „Þarna er botninn. Að níðast á syrgjendum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gefa út hreindýrabók með myndum Skarphéðins sem lést í flugslysi á Austurlandi

Gefa út hreindýrabók með myndum Skarphéðins sem lést í flugslysi á Austurlandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Foreldrar leikskólabarna í Fossvogi búnir að fá sig fullsadda af líkbrennslunni – „Anda skaðlegum svörtum reyk ofan í litlu lungun sín“

Foreldrar leikskólabarna í Fossvogi búnir að fá sig fullsadda af líkbrennslunni – „Anda skaðlegum svörtum reyk ofan í litlu lungun sín“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sjúkratryggingar semja um lýðheilsutengdar aðgerðir

Sjúkratryggingar semja um lýðheilsutengdar aðgerðir