„Ég hætti til að bjarga lífi mínu,“ segir ítalska hnefaleikakonan Angela Carini sem batt enda á bardaga sinn við alsírska keppandann Imane Khelif eftir aðeins 46 sekúndur, í hnefaleikakeppni Ólympíuleikanna í París í morgun. Khelif hafði rétt áður veitt Angelu mjög þungt högg í andlitið. Með sigrinum komst Imane Khelif í 8-liða úrslit hnefaleikakeppni leikanna, en Angela Carini er úr leik.
Angela Carini grét að keppni lokinni og sagði: „Þetta er ekki réttlátt.“ – Dailymail greindi frá.
Þátttaka Imane Khelif í hnefaleikakeppni kvenna á Ólympíuleikunum hefur verið harðlega gagnrýnd. Henni var meinuð þátttaka á heimsmeistaramóti áhugamanna vegna þess að hún stóðst ekki svokallað kynjapróf, þótti hafa of mikið magn testósteróns í líkama sínum. Gagnrýnendur segja að hún sé líffræðilegur karlmaður en ekki kona og því sé mjög óréttlátt að hún fái að keppa í kvennaflokki.
Angela Carini segist ekki vera hrædd við að boxa við karlmenn og hún hafi til að mynda oft æft með bróður sínum. Hins vegar hafi ákvörðun hennar um að hætta keppni í dag einfaldlega verið varúðarráðstöfun, hún hafi ekki verið að mótmæla. Hún hafi aldrei áður fengið eins þung högg á sig og þau sem Imane Khelif veitti henni áður en Angela ákvað að binda endi á bardagann.
Rétt er að halda því til haga að Khelif er ekki transkona og hefur kynjaskráningu sem kona í heimalandinu.
Elon Musk, eigandi samfélagsmiðilsins X, lýsti skoðun sinni á málinu í dag, þegar hann endurtísti orðum Riley Gains, sem sagði: „Karlar eiga ekki heima í kvennaíþróttum“.
Absolutely https://t.co/twccUEOW9e
— Elon Musk (@elonmusk) August 1, 2024
Fréttinni hefur verið breytt. Ranglega var hermt að Khelif væri transkona. Svo er ekki.
Dóri DNA bendir á að Khelif hefur níu sinnum tapað fyrir konum í hnefaleikakeppni. Hann segir:
„Það eina sem ég var að segja er bara þetta: Hún er ekki transkona. Og henni var ekki leyft að keppa því ólympíunefndin ætlaði að vera svo inclusive. Þessi stormur gekk yfir í mýflugurmynd þegar henni var meinað að keppa í úrslitunum á einhverju móti í fyrra. Þá fylltist allt að fullyrðingum að hún væri transkona, en fólk sem þekkti til leiðrétti það. Og ljóst var að hún stæði á gráu svæði, því reglurnar virtust bara ekki gera ráð fyrir manneskju eins og henni. Það fólk nær verr í gegn í dag. Þetta var ekki woke-taugaáfall sem leyfði karlmanni að keppa við konu. IOC strengir bara línuna annarstaðar en IBF. Íþróttasambönd eru mjög mismunandi í því. Hún stóðst öll próf og fékk þar af leiðandi að keppa. Það var ekki fundur þar sem einhver ballsy verkefnastjóri sagði LETS GO. Um ósanngjarnt forskot í íþrótt er alveg hægt að ræða. En þegar hún hefur tapað 9 sinnum – þá er það 9 sinnum of oft miðað við hvernig talað er um hana.“
Það eina sem ég var að segja er bara þetta: Hún er ekki transkona. Og henni var ekki leyft að keppa því ólympíunefndin ætlaði að vera svo inclusive.
Þessi stormur gekk yfir í mýflugurmynd þegar henni var meinað að keppa í úrslitunum á einhverju móti í fyrra. Þá fylltist allt að…
— Halldór Halldórsson (@doridna) August 1, 2024