Að sögn íslensku fjölskyldunnar sem ráðist var á á Krít var árásin tilefnislaus. Kennsl hafa verið borin á tvo árásarmennina af fjórum og einn þeirra handsamaður.
Eins og DV greindi frá í gær var ráðist á íslenska fjölskyldu á bar í borginni Heraklion á þriðjudag og hún flutt á sjúkrahús. Það er íslenska konu á fimmtugsaldri, kanadísk-grískan eiginmann hennar og tvo uppkomna syni. Fjórtán ára dóttir þeirra var einnig viðstödd. Árásarmennirnir voru fjórir Grikkir.
Málið hefur valdið miklum usla í Grikklandi og Olga Kefalogianni hefur látið sig málið varða, enda þykir það mikið álitshnekkir fyrir landið sem ferðamannalands.
Fjölskyldufaðirinn, sem er 49 ára gamall, fékk mestu áverkana og er enn þá á á spítala, eins og kemur fram í frétt Larissanet um málið. Áverkarnir eru slíkir að hann mun sennilega þurfa að fara í aðra aðgerð og dvelja lengur á spítalanum.
Í yfirlýsingu til fjölmiðla sögðust fjölskyldumeðlimirnir vera í áfalli eftir hina alvarlegu árás. Þau elskuðu Krít og kæmu til eyjunnar að minnsta kosti tvisvar á ári og fjölskyldufaðirinn ætti þar ættingja. Árásin hafi verið ofsafengin og tilhæfulaus.
Atvikið hafi hafist þegar fjölskyldan var að gera sig klára til að yfirgefa barinn. Þrjú þeirra voru farin út en fjölskyldufaðirinn og annar sonurinn fóru að barborðinu til þess að borga reikninginn. Þegar þeir ætluðu út hafi einn Grikki rekið logandi sígarettu í bakið á föðurnum, sem horfði á hann til að virða hann fyrir sér. Ekki á ógnandi hátt þó.
Þetta hafi Grikkirnir tekið nærri sér og réðust þeir á feðgana sem og aðra fjölskyldumeðlimi sem komu og reyndu að stoppa árásina. Þegar lögregla og sjúkrabíll kom á staðinn forðuðu mennirnir sér. Þá var fjölskyldan illa farin og gangstéttin blóði drifin.
Farið var með þau á spítala og ættingjar föðurins, sem búa á eyjunni komu til að aðgæta með hann og sýna fjölskyldunni stuðning.
Ferðamálastofnun Grikklands hefur haft samband við fjölskylduna, sem og ferðamálaráðherrann. En grísk stjórnvöld hafa áhyggjur af því hvaða áhrif málið kunni að hafa á ferðamannaiðnaðinn á eyjunni.
Fjölskyldan gat borið kennsl á suma árásarmennina á myndum sem lögreglan sýndi þeim. Einn þeirra er 31 árs og annar 32 ára. Hinn yngri er fundinn en lögregla leitar enn þá hins, sem og þeirra tveggja sem enn þá á eftir að bera kennsl á. Mennirnir eru góðkunningjar lögreglunnar.