Til átaka kom á göngustíg í Kópavogi í gærkvöldi sem að endaði með því að einn hlaut stungusár á hálsi og maga og annar á hendi. Morgunblaðið hefur eftir Elínu Agnesi Kristínardóttur, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að ekki virðist vera tengsl milli hnífamannsins og aðila sem hann réðst til atlögu við.
Fjórir aðilar voru á göngu á stígnum í gærkvöldi þegar maður á þrítugsaldri kom aðvífandi á hlaupahjóli. Til átaka kom milli hans og fjórmenninganna sem endaði með því að einn hinna síðarnefndu, karlmaður um fimmtugt, varð fyrir áðurnefndum alvarlegum hnífstungum. Þá varð félagi hans á svipuðum aldri fyrir hnífstungu á hendi. Sá sem var á hlaupahjólinu varð einnig fyrir meiðslum í átökunum.
Málið er í rannsókn og er litið alvarlegum augum.