fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Jakob Bjarnar tætir Fiskikónginn í sig: „Hættu þessu tilhæfulausa grenji í guðanna bænum“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 11. júní 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Jesús minn almáttugur. Hættu þessu tilhæfulausa grenji í guðanna bænum,“ segir blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson í athugasemd við færslu Kristjáns Berg Ásgeirssonar, sem oft er kenndur við Fiskikónginn, á Facebook.

Kristján hefur verið talsvert í umræðunni að undanförnu, eða eftir að hann steig fram í síðustu viku og lýsti vanþóknun sinni á starfsfólki sem tryggir sér laun án vinnuframlags með því að leggja fram læknisvottorð sem lítill grundvöllur er fyrir.

„Við atvinnurekendur erum fokking ROLUR. Hvers vegna? Við látum launþega vaða yfir okkur,“ sagði Kristján meðal annars.

Allir helstu fjölmiðlar landsins gerðu málinu skil, þar á meðal Jakob Bjarnar á Vísi, sem skrifaði frétt undir fyrirsögninni: Fiskikóngurinn segir atvinnurekendur aumingja.

Kristján skrifaði færslu á laugardag þar sem hann birti meðal annars skjáskot af ljótum athugasemdum sem hafa fallið um hann síðustu daga. Þá kom hann inn á umfjöllun fjölmiðla og skrifaði í kaldhæðnislegum tón um fyrrnefnda fyrirsögn á Vísi.

„Jakob Grétar Bjarnason fær líka verðlaun fyrir bestu smellbeituna og sína íslensku snilli. Honum tókst að breyta orðinu rola og súmera það í orðið aumingi. Þannig að fyrirsögn Jakobs, súmeruð upp í það sem ég viðhafði (að hans mati) væri að allir atvinnurekendur væru aumingjar. (Ég sagði reyndar ROLUR) Rola er sá sem þorir ekki. Aumingi er miklu ljótara orð og hefur allt aðra merkingu.“

Kristján heldur svo uppteknum hætti á Facebook í morgun þar sem hann birtir mynd af sér með Reyni Traustasyni, ritstjóra Mannlífs. Virðist Kristján hafa verið í viðtali hjá Reyni, sem hann kallar „smellibeitukóng“ og boðar hann krassandi fyrirsagnir á næstu dögum.

„Reynir Trausta og Jakob Bjarnason eru tveir aðilar sem snúa oft fyrirsögnum upp í eitthvað neikvætt. Þannig að umræðan verður neikvæð. Fyrirsagnir sem kemur fólki í vandræði, og segir eitthvað slæmt um viðmælandann.“

Jakob virðist hafa fengið sig fullsaddan á þessum pillum Fiskikóngsins ef marka má býsna harðorða athugasemd sem hann skrifaði undir færslu hans í morgun.

„Jesús minn almáttugur. Hættu þessu tilhæfulausa grenji í guðanna bænum. Ég skrifaði fremur „jákvæða frétt“ í þinn garð sem ég vann uppúr upphlaupi þínu hér á Fb og ræddi við Óla Steph. Minn risastóri glæpur er að hafa notað orðið „aumingjar“ um þá sem þú kallar „rolur sem láta vaða yfir sig“. Sem má ætla að hafi verið mild útgáfa af því sem þú sagðir. En nú er ekki hægt að skoða það því þú ert búinn að taka þennan status út. Og þetta hefur kostað mig þráhyggjukennd skrif þín og atvinnuróg og virðist ekkert lát á. Ég veit þú hefur aldrei gert það á æfi þinni en kíktu í samheitaorðabók. Og reyndu að fara rétt með nafn mitt, einu sinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt