fbpx
Þriðjudagur 18.júní 2024
Fréttir

Breiðhyltingar pirraðir á „yfirgangi“ borgarstjórnar – „Þetta lið sem stjórnar skipulagi er galið“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 10. júní 2024 19:30

Mynd/Reykjavíkurborg

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umræða hefur skapast í hópnum Íbúasamtök Breiðholts á Facebook en þar lýsa Breiðhyltingar óánægju sinni með breytingu á deiliskipulagi við Arnarbakka þar sem áður mátti finna verslunina Breiðholtskjör.

Íbúi vakti athygli á fyrirhugaðri breytingu á á deiliskipulagi þar sem hann hvetur íbúa hverfisins til að kynna sér málið og skila inn umsögnum.

„Í stuttu máli virðist, miðað við fyrra skipulag, eiga að :

 • Taka um það bil 20% meira af grænum svæðum en áður var skipulagt
 • Bæta við leikskóla
 • Bæta við 5 stúdentaíbúðum 
 • Bæta við engu bílastæði miðað við fyrri tillögu
 • Minnka halla á þökum 
 • Hæstu blokkirnar verða 4 hæðir (15m) sem er 1m hærra en hæsti punktur á næstu blokk, Blöndubakka. 
 • Hvet þá sem búa í Blöndubakka og Dvergabakka að skoða skuggavarpsmyndir sem fylgja tillögunni. Þær sýna skugga við 21. mars, sem er þegar dagur er jafn langur og nótt. (Það má gera ráð fyrir að skugginn verði. meiri á tímabilinu lok sept- lok mar, það vantar skuggavarpsmyndir fyrir t.d. jan og feb til að hægt sé að gera sér grein fyrir því.“ 

Í heildina á að: 

 • Bæta við 100 íbúðum, leikskóla og 700m2 verslunarrými 
 • Fjarlægja um það bil 75 bílastæði (ef meðtalin eru illa merktu svæðin sunnan við Arnarbakka) 
 • Búa til 40 ný stæði 
 • Stæðum á svæðinu mun sem sagt fækka um 35
 • Rökin fyrir því að það þurfi ekki fleiri stæði er að íbúar og gestir eigi að samnýta stæði með Breiðholtsskóla.“

Íbúar lýsa furðu sinni í athugasemdum við færsluna. Þarna á svæðinu sé sparkvöllur sem nú verði í skugga fyrirhugaðra bygginga hluta dags, þegar hann er einmitt notaður af skólabörnum. Eins sé í reynd verið að minnka grænt svæði í hverfinu.

Dæmi um athugasemdir sem hafa fallið:

 • „Þetta lið sem stjórnar skipulagi er galið“
 • „Þarf að troða íbúðum allsstaðar á alla smábletti?“
 • „Þetta er ekkert annað en ofbeldi“
 • „Afhverju þarf að eyðileggja heilt hverfi? ?“
 • „Þeir eru búnir að eyðileggja miðborgina þessir andskotar. Nú skal ráðist á okkur hér í efri byggðum og það með yfirgang og frekju.“
 • „Endilega öll sendið kvartanir, þetta er algjörlega galið að setja blokk austan við sparkvöll Breiðholtsskóla, búa til skugga og eyðileggja grænt svæði.“

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti þann 8. maí að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi við Arnarbakka. Tillagan var samþykkt í borgarráði þann 23. maí og hefur nú verið birt í skipulagsgáttinni. Þar segir um málið:

„Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að koma fyrir leikskóla á jarðhæð húss á lóð nr. 4, stækka lóð og auka byggingarmagn vegna leikskólans. Færa íbúðarlóð nr. 6 innan
svæðisins og breyta henni í lóð nr. 10. Lóð nr. 6 verður leikskólalóð og heimilt verður að reisa á henni útileikstofu. Stúdentaíbúðum í húsum nr. 2 og 4 og íbúðum í húsi nr. 10 (áður nr. 6) verður fjölgað og þakformum húsa nr. 2, 4 og 10 verður breytt. Sameiginleg lóð verður gerð fyrir bílastæði og djúpgáma á svæðinu ásamt því að byggingarreitur verður gerður fyrir hjóla- og sorpgeymslu“

Í samgöngumati með tillögunni segir að í deiliskipulagsbreytingunni sé áhersla lögð á græn svæði t.d fyrir hjólabrettagarð, klifurvegg, opin svæði til að njóta og fleira. Stefnan er að fólk geti sótt flesta þjónustu innan hverfisins og þurfi því að ferðast styttri vegalengdir og geti þá nýtt sér vistvænar samgöngur í meiri mæli en nú.

Nánar má lesa um tillöguna hér en hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum í gegnum skipulagsgátt til 19. júlí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt