fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Bjarni gefur lítið fyrir málflutning Arnars Þórs – „Mér finnst hann eiginlega vera orðinn ómarktækur“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 29. maí 2024 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra finnst sumir forsetaframbjóðendur misskilja hlutverk forseta og hafa sérkennilegar hugmyndir um völd hans. Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna í hlaðvarpinu Chess after Dark.

„Mér finnst menn ganga of langt. Margt af því sem hefur verið sagt í þessari kosningabaráttu snýst bara um pólitík. Við erum með þjóðkjörið þig, sko. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Við erum ekki með forsetaræði á Íslandi. Mér finnst menn hafa aðeins farið fram úr sér í þessu og ekki fengið allt of mikið aðhald þar sem þeir hafa verið að tjá sig um þetta,“ segir Bjarni.

Hann var spurður álits á forsetaframboði Ásdísar Rán og virtist þá heldur betur léttast brúnin á forsætisráðherranum, sem hló og sagði: „Það er ekki hægt að neita því að það hefur verið mikið líf og fjör í kringum framboð Ásdísar Rán og ég hef oftar en ekki hlegið upphátt þegar ég hef séð kynningarefni sem hún hefur fram að færa. Ég á sama tíma dáist að því hvað hún hefur verið staðföst og bara fylgin sér og þorir að vera hún sjálf og fyrir þann karakterstyrk finnst mér að hún eigi talsvert mikið hrós skilið.“

Talinu var síðan vikið að Arnari Þór Jónssyni, sem var þingmaður Sjálfstæðisflokksins en gagnrýnir nú flokkinn harðlega. Bjarni sagði ekki erfitt að upplifa gagnrýni fyrrverandi flokksfélaga en hefur margt við málflutning Arnars að athuga. „Hugmyndir eins og t.d. það að forsetinn eigi að neita ríkisstjórn um ákveðna ráðherrastóla eða ætla að fara að hafa afgerandi áhrif á það, það finnst mér gersamlega út í hött. Ég hef aldrei einu sinni séð þeirri hugmynd fleytt neinsstaðar í lagalegri umræðu sem ég kannast við. Og er búinn að vera lengi í þessum bransa. Það finnst mér t.d. alveg stórundaleg nálgun. Annars hefur Arnar verið verið mjög yfirlýsingaglaður og hikar ekki við að segja mér og varaformanni Sjálfstæðisflokksins bara að segja af sér ef honum líkar ekki við eitthvert stefnumálið. Þannig að mér finnst hann eiginlega vera orðinn ómarktækur í gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn.“

Bjarni og stjórnendur hlaðvarpsins voru sammála um að sumir frambjóðendur væru fremur að ræða um breytta stjórnskipan en eðlileg störf forseta. Bjarna finnst málflutningur sumra frambjóðenda vera innistæðulaus: „Að vera farnir að spá endalokum lýðræðis eða lýðveldisins Íslands innan fárra ára ef ekki verður snúið af braut, mér finnst þetta bara algjörlega vera innistæðulaust tal. Og horfa framhjá öllu sem aðalmáli skiptir, sem eru lífsgæði þess að búa á Íslandi, það er bara eins og hér brenni annað hvert hús og allir séu að flýja landið. Okkur er að fjölga og lífskjör á Íslandi eru fremst á meðal þjóða.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt