fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Gagnkvæmar ásakanir um lygar – Fullyrðingar um stuld á fósturvísum, umsáturseinelti og hótanir

Ritstjórn DV
Föstudaginn 9. febrúar 2024 21:00

Í málinu var meðal annars deilt um framgöngu lögmanns. Myndin er úr dómssal Hæstaréttar og tengist fréttinni ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega var birtur úrskurður úrskurðarnefndar Lögmannafélags Íslands í máli nokkru. Tveir einstaklingar beindu kvörtun yfir framferði lögmanns nokkurs til nefndarinnar. Sökuðu þeir lögmanninn, sem starfaði fyrir einstaklinga sem kært höfðu einstaklinganna sem kvörtuðu til lögreglu fyrir umsáturseinelti, um margvísleg lögbrot og brot á siðareglum lögmanna. Umbjóðendur lögmannsins hafa hins vegar lýst langvarandi umsáturseinelti af hálfu kvartenda sem hafa sakað umrædda umbjóðendur um að hafa stolið fósturvísum þeirra og fullyrða að börn fólksins séu í raun líffræðileg börn þeirra. Úrskurðarnefndin úrskurðaði hins vegar lögmanninum í hag.

Umbjóðendur lögmannsins eru foreldrar fjögurra ólögráða barna sem kvartendur telja vera líffræðileg börn sín. Umbjóðendurnir kærðu kvartendurna til lögreglu fyrir umsáturseinelti og fóru jafnhliða fram á nálgunarbann.

Kvartendurnir, sem ekki verður betur séð en að séu karlmaður og kona, sökuðu lögmanninn, sem er kona, um að hafa, við framlagningu kærunnar, brotið siðareglur lögmanna, almenn hegningarlög, barnaverndarlög og barnalög. Þeir segja að lögmaðurinn hafi í kærunni lýst atvikum ranglega og í henni hafi verið að finna hreinan uppspuna. Lögmaðurinn var sökuð um að skálda atvik, í samráði við umbjóðendur sína, í gögnum sem fylgdu kærunni. Kvartendurnir sögðu að með þessu hefði lögmaðurinn gerst brotlegur við hegningarlög með því að falsa sönnunargögn til að ná fram nálgunarbanni gegn þeim sem hafi verið þeim afar þungbært.

Raunin varð sú að fallist var á nálgunarbann gagnvart kvartendunum og segja þeir að framferði lögmannsins hafi átt mikinn þátt í því.

Sögðu hagsmuni annarra hafa haft áhrif

Í kvörtuninni sögðu kvartendur að lögmaðurinn hafi brotið siðareglur lögmanna með því að blanda hagsmunum aðila sér tengdum og eigin sjónarmiðum við hagsmuni umbjóðenda sinna.

Þau fullyrða einnig að lögmaðurinn hafi aflað sér upplýsinga úr stjórnsýslunni um að annað þeirra sé með skotvopnaleyfi og notað það gegn þeim í kærunni með þeim hætti að það teljist vera brot á siðareglum lögmanna og hegningarlögum. Kvartendur fullyrða sömuleiðis að lögmaðurinn hafi brotið siðareglurnar með því að bjóða þeim að undirrita yfirlýsingu um að þau myndu láta umbjóðendur hennar í friði gegn því að kærunni yrði ekki fylgt eftir.

Vilja láta framkvæma rannsókn á börnunum

Kvartendurnir segja að annar angi af brotum lögmannsins gegn siðareglum lögmanna sé sá að hafa lagt kæruna fram fyrir hönd barnanna sem þau telja vera sín. Með þessu sé verið að beita börnunum sem verkfæri í málinu til að gera kvartendunum erfiðara um vik við að framfylgja framkominni kröfu um að erfðafræðileg rannsókn verði framkvæmd á börnunum en kvartendur höfðu beint slíkri kröfu að umbjóðendum lögmannsins áður en til kærunnar fyrir umsáturseineltið kom. Þetta háttalag við kæruna skaði börnin og þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að láta skoðanir sínar í ljós sem gangi gegn barnalögum.

Í kvörtunni saka kvartendur lögmanninn sömuleiðis um að hafa brotið hegningarlög með því að saka þau ranglega um refsiverðan verknað. Kvartendurnir fullyrða einnig að þau hafi ekki nálgast umbjóðendur lögmannsins á nokkurn hátt nema með því að senda þeim bréf með kröfum um erfðafræðilega rannsókn á börnunum. Tilvísunin í skotvopnaleyfi annars þeirra feli einnig í sér dulda hótun í þeirra garð.

Enn einn anginn í kvörtunum kvartendanna gegn lögmanninum er að hún hafi lagt fram nafnlaus bréf og fullyrt ranglega að þau væru frá umbjóðendum hennar. Slíkt sé brot á hegningarlögum. Lögmaðurinn eða umbjóðendur hennar hafi einnig brotið hegningarlög með því að leggja fram nafnlaust bréf og rita nafn látins manns undir það.

Vegna alls þessa vildu kvartendur að úrskurðarnefndin myndi beita lögmanninn mestu mögulegu viðurlögum auk þess að birta nafn hennar opinberlega með úrskurðinum.

Segir um hreinan hugarburð að ræða og að umbjóðendurnir hafi verið hræddir

Þegar kemur að sjónarmiðum lögmannsins í úrskurðinum fullyrðir hún að kvartendur hafi gert mun meira en að senda eitt bréf til umbjóðenda hennar.

Hún segir að umbjóðendur sínir séu nokkrar fjölskyldur sem hafi sætt áreitni og umsáturseinelti af hálfu kvartenda. Fullyrðingar þeirra um þjófnað á fósturvísum þeirra og að börn umbjóðendanna séu í raun börn þeirra sé hugarburður. Kvartendurnir byggi þessar fullyrðingar aðallega á samanburð á myndum af sjálfum sér þegar þau voru börn og myndum af börnunum sem þau fullyrða að séu sín.

Lögmaðurinn sagði kvartendur hafa sent umbjóðendum hennar kröfubréf, hringt í ættingja þeirra og yfirmenn sem hafi gengið svo langt í einhverjum tilvikum að ógna atvinnuöryggi þeirra. Umbjóðendur hennar hafi óttast kvartendurna mjög og að þau myndu grípa til örþrifaráða eins og þau hafi hótað að gera í bréfum. Þess vegna hafi verið farið fram á nálgunarbannið og kvartendur hafi beinlínis neitað að láta af háttsemi sinni í garð umbjóðenda hennar gegn því að kæran yrði dregin til baka. Nálgunarbannið standi enn og hafi ekki verið hnekkt af dómstólum.

Lögmaðurinn hafnaði öllum fyllyrðingum um brot á lögum og siðareglum lögmanna. Engir aðrir hagsmunir hefðu haft áhrif á störf hennar sem hafi verið í fullu samræmi við siðareglur lögmanna sem kveði á um að þeir verði að gæta að hagsmunum umbjóðenda sinna eins vel og mögulegt er. Sjónarmið hennar hafi heldur ekki blandast með óeðlilegum hætti við þau sjónarmið umbjóðenda hennar sem rakin séu í kærunni til lögreglunnar.

Hún segist ekki hafa búið yfir trúnaðarupplýsingum um skotvopnaleyfi annars kvartenda, heldur aðeins lagt til að kannað yrði hvort hann byggi yfir vopnum, og hafnar því að hafa sakað kvartendur ranglega um refsiverðan verknað. Allar lýsingar í kærunni hafi verið byggðar á orðum umbjóðenda hennar sem hafi verið studd gögnum.

Lögmaðurinn fullyrti að kvörtunin hafi verið liður í áreitni kvartenda gegn umbjóðendum hennar.

Sögðu lögmanninn gera lítið úr þeim

Í andsvörum sínum við sjónarmiðum lögmannsins stóðu kvartendurnir við fullyrðingar sínar. Þau sögðu hana gera lítið úr sér og að fullyrðingar um að þau væru foreldrar barnanna væru studd læknisfræðilegum gögnum. Fullyrðingar um að þau hafi hringt í ættingja og yfirmenn umbjóðenda hennar séu rangar og þau hafi ekki sent nein bréf með hótunum um að grípa til örþrifaráða.

Þau segja að lögmaðurinn hafi margvísleg tengsl við umbjóðendur sína sem hafi litað allla framgöngu hennar í málinu og einn umbjóðandinn sé tengdur yfirmanni ákærusviðs Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Umfjöllun í kærunni um hugsanlega skotvopnaeign annars kvartendanna hafi ennfremur falið í sér ærumeiðingar í hans garð.

Lögmaðurinn hafi ekki gerst brotlegur á nokkurn hátt

Í niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar segir að mat á sannleiksgildi fullyrðinga í kæru lögmannsins til lögreglu fyrir hönd umbjóðenda sinna, sem kvartendur segja vera hreinan uppspuna, sé utan verksviðs hennar.

Nefndin telji að við þær aðstæður sem uppi séu í þessu máli, þar sem foreldrar telji börn sín verða fyrir áreitni og einelti sem ógni öryggi þeirra og velferð, þurfi lögmaður ákveðið svigrúm til að tjá skoðanir og sjónarmið umbjóðenda sinna. Kæran og krafan um nálgunarbann byggi á sjónarmiðum þeirra en ekki lögmannsins sjálfs eins og kvartendur fullyrði.

Nefndin telur lögmanninn ekki hafa samkennt sig með sjónarmiðum umbjóðenda sinna með þeim hætti að það teljist brot á siðareglum lögmanna. Sjónarmiðin séu sett fram með málefnalegum hætti í kæru til lögreglu. Ósk lögmannsins um að vopnaeign annars kvartenda yrði könnuð hafi ekki falið í sér hótun eða þvingun. Enn fremur renni engin gögn stoðum undir fullyrðingar um að lögmaðurinn hafi komist yfir trúnaðarupplýsingar um skotvopnaleyfi annars kvartenda.

Ekkert hafi heldur bent til þess að lögmaðurinn hafi brotið siðareglur lögmanna með því að láta hagsmuni óviðkomandi aðila hafa áhrif á störf sín í málinu.

Enn fremur hafi hagsmunagæsla lögmannsins fyrir hönd umbjóðenda sinna ekki á nokkurn hátt brotið gegn barnalögum, barnaverndarlögum eða hegningarlögum.

Niðurstaðan nefndarinnar er því að lögmaðurinn hafi ekki brotið lög eða siðareglur lögmanna í málinu.

Úrskurðinn í heild er hægt að lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt