fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Gabríel Aron sakfelldur fyrir hryllingsárásina í Hafnarfirði – „Af hverju svarar þú ekki símanum?“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 29. febrúar 2024 16:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gabríel Aron Sigurðsson hefur verið dæmdur í 15 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir rán og sérstaklega hættulega líkamsárás. Eins þarf hann að greiða brotaþolum annars vegar 800 þúsund krónur og hins vegar 300 þúsund krónur. Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir viku síðan.

Sjá einnig:Ofbeldismaður látinn laus sex dögum eftir húsbrot og stórhættulega líkamsárás – „Ég er skilin eftir í óvissu“

Brotaþolar í málinu eru tveir. Fyrrum vinkona Gabríels og herbergisfélagi hennar. Þær bjuggu á þessum tíma í Hafnarfirði. Herbergisfélaginn var nýkomin úr búðinni. Hún opnaði svalahurðina til að lofta út á meðan hún eldaði. Áður en hún gat hafist handa var Gabríel skyndilega kominn óboðinn inn og vopnaður. Gabríel rukkaði herbergisfélagann um peninga sem hún skuldaði honum. Hann lét sér þó ekki nægja minna en að taka allt reiðufé sem hún hafði á sér, sem var nokkuð umfram skuldina. Því næst rauk hann inn í svefnherbergi þar sem vinkona hans svaf.

Af hverju svarar þú ekki í símann?

Vinkonan vaknaði við vondan draum. Gabríel stóð yfir henni og öskraði:“Af hverju svarar þú ekki símanum?“, en þegar hún reyndi að svara fyrir sig greip hann  um háls hennar og þrengdi að.

Hún náði að grípa síma sinn og hringja þar í kunningja. Sá heyrði lætin og heyrði vinkonuna grátbiðja Gabríel um að hætta atlögu sinni. Gabríel hafi svo slegið til hennar og svo skyndilega látið sig hverfa. Þegar hún stóð upp var hún vönkuð og sá þá að hún var öll úti í blóði.

Sérsveitin fór í kjölfarið að heimili Gabríels og handtók hann. Hann þverneitaði þó sök. Þetta kvöld hafi hann verið á verkstæði vinar síns að vinna og svo farið beint heim að sofa. Vinurinn tók undir þetta. Gabríel  hafi verið á verkstæðinu allt kvöldið og svo tekið leigubíl heim.

Reyndi Gabríel að halda því fram að brotaþolar væru að ljúga. Réttarlæknir var spurður hvort að áverkar vinkonunnar gætu verið afleiðing sjálfsskaða, sem læknirinn tók fyrir, og svo benti Gabríel á að herbergisfélaginn hafi sagt lögreglu að Gabríel  hafi yfirgefið vettvang á BMW bifreið sinni. Það sé ósatt, enda hafi BMW bifreið hans setið óhreyfð fyrir utan heimili hans nokkra hríð eftir að lögregla tók af honum lyklana.

Kyrrsettur BMW ekki tilefni sýknu

Dómari rakti að BMW-bifreiðin gæti ekki grafið undan trúverðugum framburði brotaþola. Þær hafi báðar verið stöðugar í frásögn sinni frá upphafi, kunninginn í símanum hafi heyrt vinkonuna nafngreina Gabríel og biðja hann um vægð, og svo höfðu báðar gefið greinagóða lýsingu á klæðnaði Gabríels þetta kvöld, sem kom heim og saman við fötin sem lögreglan fann hann í. Verkstæða vinurinn hefði ekki verið samkvæmur í sinni lýsingu. Hann hafi ýmist sagt að Gabríel hafi verið bíllaus eða á sendibíl þetta kvöld, og svo bæði gengist við og neitað að Gabríel hefði getað skroppið af verkstæðinu til að fremja ódæðið, en verkstæðið er staðsett 1,8 km frá heimili brotaþola.

Auk þess gat dómari ekki séð nokkra ástæðu fyrir því að brotaþolar færu að setja árásina á svið, eða kenna Gabríel saklausum um hana. Gabríel væri sekur og engin rök fyrir því að skilorðsbinda refsingu hans í ljósi töluverðs brotaferils. Vinkonunni þarf hann að greiða 800 þúsund krónur, en hún glímir við varanlegar afleiðingar af árásinni. Meðal annars missti hún tilfinningu í fingrum og hreyfigetu i hendi sem varð til þess að hún þurfti að hætta hárgreiðslunámi.  Hún hafði áður lýst því við DV að árásin hafi verið með öllu tilefnislaus. Hún gagnrýndi að lögregla hafi sleppt Gabríel aðeins sex dögum eftir árásina. Hún væri ekki eini brotaþoli hans og þyrfti nú að ganga með veggjum.

Dómurinn sem Gabríel hlaut árið 2022 varðaði meðal annars húsbrot og líkamsárás sem átti sér stað árið 2021. Brotaþoli í því máli náði árásinni á öryggismyndavél.

Sjá einnig: Gabríel Aron sakfelldur fyrir húsbrot og líkamsárás – Árásin náðist á eftirlitsmyndavél

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt