fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Uppnám á árshátíð eftir „einbeitta og snögga“ atlögu manns að samstarfskonu

Ritstjórn DV
Mánudaginn 26. febrúar 2024 15:35

Mynd: DV/Maggi gnúsari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni sem átti sér stað á árshátíð árið 2022. Eins þarf maðurinn að greiða brotaþola 500 þúsund krónur í miskabætur.

Það var þann 1. október 2022 sem lögreglu barst beiðni um að fjarlægja karlmann af árshátíð sem var haldin á ónefndu hóteli. Þegar lögreglu bar að garði var brotaþoli í málinu í miklu uppnámi á herbergi sínu en ákærði óviðræðuhæfur sökum ölvunar. Aðrir gestir á árshátíðinni höfðu lokað ákærða inni á herbergi og var mikið uppnám í hópnum. Lögregla skrifaði í frumskýrslu að þau hafi reynt að ræða við ákærða en það ekki gengið. Ákærði virtist skilja litla ensku og enga íslensku.

Ekki lengur sama manneskjan og hún var

Brotaþoli greindi svo frá því að hún hafi verið að skemmta sér með vinnustað sínum. Hún hafi verið að dansa þegar ákærði gekk upp að henni, káfaði á kynfærum hennar, og gekk svo áfram framhjá henni í átt að barnum. Fram kom í dómi að brotaþoli átti erfiða áfallasögu að baki, þar með talið sökum kynferðisbrots. Hún hafði nokkru áður lokið ítarlegri meðferð við alvarlegri áfallastreituröskun, þó svo að hún væri enn vör um sig og átti erfitt með að treysta. Þetta umrædda kvöld hafi hún verið á starfsmannaskemmtun með manni sínum. Hún hætti sér sjaldan á mannamót sem þetta, enda líði henni óþægilega í margmenni sökum áfallasögu. Hún drekki jafnan ekki áfengi við svona tilefni en það sé hluti af öryggisviðbragði hennar til að reyna að hafa stjórn á aðstæðum og tryggja öryggi sitt. Þetta kvöld hafi hún þó náð að slaka smá á og skemmta sér. Því ætlaði hún að fá sér einn drykk, hvítvín þynnt með sprite, og hafði maður hennar farið á barinn að sækja drykkinn fyrir hana. Hún hafi á meðan dansað með samstarfsfélögum og þá hafi ákærði komið og brotið á henni.

Ekki gæti hafa verið um óhappatilvik að ræða enda augljóst af þuklinu að þetta væri gert af ásetning. Hún hafi í kjölfarið frosið og stirðnað upp og svo brotnað algjörlega saman. Hún greindi strax frá því sem hafði gerst og var henni komið upp á herbergi sitt í kjölfarið. Málið hefði haft gífurlega alvarlegar afleiðingar fyrir hana. Hún átti erfitt með að mæta í vinnu, fékk endurteknar martraðir, var með stöðug kvíða- og óttaviðbrögð, svefntruflanir, martraðir og stöðugt óöryggi. Á endanum hætti hún í vinnunni og fann sér vinnu þar sem bara konur vinna. Sálfræðingur sem bar vitni tók fram að það sé þekkt innan fræðinnar að atvik sem þetta geti virkjað viðbrögð við fyrri áföllum. Hérna hafi brotaþoli verið búin að vinna í alvarlegri áfallastreitu en sú vinna að engu gerð eftir áreitnina. Brotaþoli greindi frá því að hún þurfti aftur að byrja á kvíða- og þunglyndislyfjum og geti ekki verið inni í herbergi með karlmönnum. Hún sé ekki lengur sama manneskjan og hún var fyrir atvikið.

Mundi eitt en ekki annað

Ákærði sagðist ekkert muna eftir kvöldinu. Hann þvertók samt fyrir að hafa verið ofurölvi og sagðist aðeins hafa drukkið tvo drykki. Mögulega hefði stress áhrif á minni hans, en minnið væri almennt ekki gott og ætti hann erfitt með að muna hvað hann segði sjálfur fyrir 10 mínútum. Hann sagðist þó muna að á hótelinu væru eftirlitsmyndavélar, en kunni engar skýringar á því að muna það, en ekki annað frá kvöldinu. Hann taldi sig saklausan og sagðist almennt ekki káfa á konum, þetta mætti sjá á því að hann hafi lengi unnið hjá fyrirtækinu og ítrekað mætt á starfsmannaskemmtanir án þess að vera sakaður um nokkuð misjafnt. Hann sagðist vita til þess að brotaþoli væri þó þekkt fyrir að kvarta undan fólki, yfir minniháttar hlutum sem fólk geri.

Hann neitaði eins að hafa verið að taka myndir ofan í brjóstaskoruna á konum sem voru að dansa á skemmtuninni og sagðist aðeins hafa verið að taka upp trúbador sem var að spila. Hann hafi verið rekinn úr vinnunni vegna málsins og á árshátíðinni hafi hópur fjögurra manna ráðist á hann, tekið höndum og haldið þar til lögregla kom, án þess að hann hefði nokkuð gert.

Nokkur fjöldi vitna var leiddur fram fyrir dómi og greindu þau frá því að brotaþoli hafi greinilega lent í einhverju sem hafði gífurlega neikvæð áhrif á hana. Hún hafi greint frá því að ákærði hafi snert á henni kynfærin utanklæða, brotnað saman og hágrátið. Vitni greindu frá því að ákærði hefði verið stórfurðulegur þetta kvöld, ölvaður og óþægilegur við konur á dansgólfinu með því að mynda þær án þeirra samþykkis.

Dómari rakti að brotaþoli hafi verið trúverðug og samkvæm sjálfri sér í gegnum ferlið. Ákærði hafi aftur á móti verið ótrúverðugur. Ljóst væri að engin samskipti hafi átt sér stað milli ákærða og brotaþola þetta kvöld og háttsemi ákærða geti ekki talist hafa átt sér stað óvart. Hér hafi verið um einbeitta og snögga atlögu ákærða gegn brotaþola að ræða. Þar með taldi dómari sannað að ákærði væri sekur. Hann hafi brotið gegn brotaþola á meiðandi og ofbeldisfullan hátt. Refsing væri hæfileg fangelsi í þrjá mánuði, bundið skilorði. Hann ahfi ein bakað sér bótaábyrgð enda brotið haft mikil áhrif á líf brotaþola. Bætur væru hæfilega metnar 500 þúsund krónur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt