fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Páll skipstjóri svarar Þórði Snæ – Segir starfsmann Kjarnans hafa setið fyrir dóttur hans á skemmtistað

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 22. febrúar 2024 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Starfsmaður Þórðar Snæs á Kjarn­an­um sál­uga sat nefni­lega fyr­ir einu barni mínu á skemmti­stað og var það aðgangs­h­arður að sam­ferðafólk dótt­ur minn­ar þurfti að beina viðkom­andi í burtu,“ segir Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Páll svarar þar leiðara Þórðars Snæs Júlíussonar í Heimildinni í síðustu viku.

Umræðuefnið er margnefnt mál sem varðar stuld á síma Páls Steingrímssonar árið 2021 og meinta afritun á gögnum úr honum. Svo virðist sem verðlaunaður fréttaflutningur Stundarinnar af framferði svokallaðrar skæruliðadeildar Samherja hafi verið byggður á gögnum úr síma Páls. Fjórir blaðamenn hafa allt frá árinu 2022 haft stöðu sakbornings í rannsókn Lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Svo virðist sem ekkert sé að gerast í málinu og blaðamennirnir hafa þurft að búa við að hafa stöðu sakbornings í málinu í yfir tvö ár án ákæru.

DV greindi frá leiðara Þórðar í síðustu viku. Þórður segir að hann hafi mátt sitja undir fjarstæðukenndum ásökunum og samsæriskenningum núna á þriðja ár með meðan lögreglan á Norðurlandi eystra hafi leitaði logandi ljósi að einhverju til að sanna sekt.

Lögregla hafi ekki einu sinni fengið staðfest að fréttaflutningur um skæruliðadeildina byggi yfir höfuð á gögnum úr síma Páls, hvað þá að þeirra hafi verið aflað með ólögmætum hætti.

„Æsilegar samsæriskenningar um að RÚV haldi úti sérstökum tæknimanni til að sinna slíkum glæpaverkum fyrir aðra fjölmiðla og að umræddur sími hafi verið afritaður þar, með vitund og vilja síbreytilegs hóps starfsmanna og yfirmanna, eiga sér enga stoð í gögnum álsins. Enda fjarstæðukennd þvæla.“

„Samandregið þá hefur lögreglunni, með rannsókn sinni, tekist að afsanna allt sem hún lagði upp með að sanna. Eftir stendur ekkert nema hugarburður eins manns og rannsókn lögregluembættis, sem var eggjað áfram af áhrifafólki í stjórnmálum, á forsendum þess hugarburðar sem leitt hefur embættið út í skurð. Þar situr það embætti nú og neitar að koma upp.“

Þórður segir Pál skipstjóra hafa verið mjög málglaðan og borið ýmsar ósannaðar sakir á blaðamennina. „Hann heldur því fram að fyrrverandi eiginkona hans hafi, í samráði við blaðamenn, lagt á ráðin um að byrla honum ólyfjan, stela síma hans og koma gögnum úr þeim í umfjöllun hjá fjölmiðlum,“ skrifar Þórður og tekur fram að í svörum frá lögreglu hafi sakborningar fengið að vita að meint brot þeirra eigi að varða við ákvæði almennra hegningarlaga sem fjalla um stafrænt kynferðisofbeldi. Því sé haldið fram að blaðamenn hafi afritað farsíma Páls og þá meðal annars komist yfir persónuleg myndbönd sem sýndu hann í kynferðislegu samhengi. Þessum myndböndum hafi blaðamenn svo dreift.

Þórður segir ennfremur:

„Þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir blaðamanna og lögmanna þeirra þá hefur lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, eða þeir starfsmenn hennar sem koma að rannsókninni, ekki fengist til að gera skýra grein fyrir því að hverju grunur um refsiverða háttsemi af hans hálfu beinist. Lögreglan vill ekki segja hvaða hátterni við eigum að hafa sýnt af okkur til að teljast glæpamenn. Það er leyndarmál.“

Páll segir Þórð hafa yfirburðastöðu

Sem fyrr segir svarar Páll leiðara Þórðar með aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að enginn hafi ásakað Þórð um byrlun eða símastuld:

„Þórður Snær hef­ur þvert á sak­born­ings­stöðu sína talið sig fórn­ar­lamb. Hann hef­ur margsinn­is lýst því yfir að hann skilji ekki hvers vegna hann sé til rann­sókn­ar og að hann hafi aldrei eitrað fyr­ir nokkr­um manni eða stolið síma. Það er því ágætt að hafa nokkr­ar staðreynd­ir á hreinu.

Eng­inn hef­ur ásakað hann um að eitra fyr­ir mér. Það er vissu­lega þannig að efnið kom ekki fram á því prófi sem notað var á spít­al­an­um. Það kem­ur ekki fram nema prófað sé fyr­ir því. Það þýðir til dæm­is lítið að láta mann blása í áfeng­is­mæli ef hann er grunaður um að hafa sprautað sig með heróíni. Eng­inn hef­ur ásakað hann um að stela sím­an­um mín­um. Það er vitað hver tók sím­ann og hvar hann var af­ritaður. Hann er með stöðu sak­born­ings fyr­ir að hafa birt einka­efni op­in­ber­lega og grun­ur er um að ekki hafi verið þær refsi­leys­is­ástæður fyr­ir hendi sem hann held­ur fram. Lög­regl­an hef­ur verið skýr og skil­merki­leg í skýrslu­tök­um um það.“

Páll segir að Þórður og aðrir sakborningar í málinu hafi aldrei svarað þessari spurningu:

„Vissu þeir að þeir myndu fá per­sónu­leg sam­skipta­gögn mín í hend­ur og voru því í start­hol­un­um þegar sím­inn barst í Efsta­leiti og var af­ritaður? Það er stóra spurn­ing­in sem eng­inn hef­ur spurt og eng­inn held­ur svarað.

Því verður nefni­lega ekki neitað að brott­hvarf Aðal­steins Kjart­ans­son­ar af RÚV fyr­ir há­degi 30. apríl og byrj­un sam­dæg­urs á Stund­inni þrem­ur dög­um áður en ég lenti inni á gjör­gæslu í önd­un­ar­vél er nú frek­ar grun­sam­legt svo ekki sé fast­ar að orði kveðið.“

Páll segist hafa skilning á erfiðri stöðu Þórðar Snæs en bendir á að fólk tengt Samherja hafi einnig haft stöðu sakbornings í langvarandi rannsóknum í málum sem tengjast starfsemi Samherja í Namibíu og ekki hafi þeim verið hlíft í fréttaflutningi.

Hann segir einnig að staða hans og Þórðar við að koma viðhorfum þeirra í málinu á framfæri sé afar ólík. Hann hafi einungis sína Facebook-síðu til að tjá sig á meðan Þórður hafi ótakmarkaðan aðgang að öllum fjölmiðlum landsins. Segir Páll að sjaldgæft sé að hann fái birtar aðsendar greinar í fjölmiðlum og hann hafi fyrst farið í viðtal vegna málsins sumarið 2023. Kastljós hafi aftur á móti í tvígang hafnað því að taka við hann viðtal en tekið viðtöl við sakborninga í málinu.

Til umræðu í greinum beggja mannanna er síðan óþægileg áhrif fréttaumfjöllunar á fjölskyldu sakborninga. Í því samhengi ber Páll fram ásökun á starfsmanns Kjarnans (sem síðar sameinaðist Stundinni við stofnun Heimildarinnar):

„Ég minn­ist þess líka þegar Þórður Snær fór í viðtal á Hring­braut og fór yfir hversu erfitt það væri að fræða börn­in sín um hvað það er að hafa stöðu sak­born­ings. Ég skil mæta­vel áhyggj­ur Þórðar Snæs af áhrif­um um­fjöll­un­ar á börn­in sín. Ég minn­ist þess hins veg­ar ekki að hafa mætt sam­bæri­leg­um skiln­ingi þegar við rædd­umst við í síma skömmu fyr­ir viðtalið mitt 12. júní 2023 um börn­in mín. Og vegna viðbragðsleys­is hans, þá ákvað ég að fara í viðtal. Starfsmaður Þórðar Snæs á Kjarn­an­um sál­uga sat nefni­lega fyr­ir einu barni mínu á skemmti­stað og var það aðgangs­h­arður að sam­ferðafólk dótt­ur minn­ar þurfti að beina viðkom­andi í burtu.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu