fbpx
Laugardagur 24.febrúar 2024
Fréttir

Vekur ólgu með skrifum sínum – „Pistill Guðbjörns er honum til minnkunar“ – „Er það hatursorðræða að elska sína eigin þjóð?“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 12. febrúar 2024 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðbjörn Guðbjörnsson, yfirtollvörður og óperusöngvari, hefur fengið sterk viðbrögð við pistlum sínum á Facebook undanfarið en í þeim skrifum tengir hann saman ástandi á Suðurnesjum vegna náttúruhamfara og kostnað þjóðabúsins vegna hælisleitenda. Hefur hann verið sakaður um að ýta undir hatur með pistlum sínum undanfarið en á móti hafa einnig margir tekið undir skrif hans.

Pistill sem Guðbjörn birti á laugardaginn fór fyrir brjóstið á mörgum en þá sagði hann meðal annars:

Það sætir furðu minni er ég sit hér í húsinu mínu í Njarðvík og hitastigið við frostmark, vitandi vits um að fyrir löngu síðan urðu um 4 þúsund Grindvíkingar að flóttamönnum í eigin landi, að ríkisstjórn Íslands skuli enn ausa peningum úr landi í alls kyns þróunaraðstoð, jafnvel fyrir meðlimi hryðjuverkasamtaka. Er ekki mál að Alþingi verði slitið og fólk spurt hvort það sé sammála þessum dellustjórnmálum eða skiptir skoðun Íslendinga kannski alls engu máli lengur? Svarið er einfalt: NEI. Skoðun nokkurra þúsunda góðs fólks og nemenda í Hagaskóla skiptir því mun meira máli.

 Bjarni Benediktsson fyrrverandi fjármálaráðherra viðurkenndi í dag og staðfesti ummæli Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra að bein útgjöld ríkissjóðs til flóttamannamála væru árlega í kringum 20 milljarðar króna eða svipuð upphæð og ef allar fasteignir í Grindavík væru keyptar af ríkissjóði. Þetta er líklega um 50% af útlögðum kostnaði vegna flóttamanna, sem eru sennilega í 40-45 milljarðar á ári. Er ekki kominn tími á að spyrja kjósendur hvort þeir séu sammála 2000% kostnaðaraukningu í þennan málaflokk pólitískra flóttamanna og förumanna á aðeins 8 árum?

 Fyrir 2 mánuðum síðan kom í ljós að neyðarsjóður á fjárlögum, sem er í raun til staðar til að fjármagna óvænt ríkisútgjöld líkt og varnargarðana við Grindavík og Svartsengi, hafði verið tæmdur til að fjármagna komu 4-5 þúsund flóttamanna og það enn eitt árið. Til að fjármagna nauðsynlega varnargarða var því enn einn skatturinn lagður á landsmenn. Nú er utanríkisráðuneyti Sjálfstæðisflokksins að senda út diplómata til að sækja 150 flóttamenn í viðbót af Gaza-svæðinu, sem búið er að lofa dvalarleyfi. Vill meirihluti landsmanna sólunda skattfé á þennan hátt og ætti ekki að spyrja kjósendur út í þetta?

Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa skrif Guðbjörns er Egill Helgason, fjölmiðlamaður, sem segir:

„Sérlega ógeðfelld skrif. Það eru engin tengsl milli hælisleitenda og heitavatnsskorts á Suðurnesjum. Og þar hírast reyndar hælisleitendur í kulda í lélegu húsnæði. Við skulum passa okkut að ala ekki á hatri.“

Eftir að hafa fengið yfir sig töluverða gagnrýni fyrir þessi skrif brást Guðbjörn við með öðrum pistli, þar sem hann gefur ekkert eftir, en sá pistill hefur, er þetta er skrifað, fengið um 400 jákvæð lyndistákn. Í þessum pistli hnýtir Guðbjörn í þær konur sem hafa undanfarið hafa komið flóttamönnum frá Gaza til Íslands, en viðkomandi höfðu í krafti fjölskyldusameiningar við ættingja sína öðlast rétt til alþjóðlegrar verndar hér. Hart hefur verið tekist á um í samfélaginu hvort stjórnvöld eigi að sækja fólkið til Gaza, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og forsætisráðherra hafa sagt þá aðgerð vera flókna og því vakti eðlilega mikla athygli þegar þrír íslenskir rithöfundar gerðu sér lítið fyrir og komu fólki hingað til lands frá þessu stríðshrjáða svæði. Guðbjörn skýtur á þær og Semu Erlu Serdar, aðjúnkt við HÍ og formann fljóttamannahjálparinnar Solaris:

„Gárungarnir segja mér að rithöfundarnir, sem eru að sækja hælisleitendur til Egyptalands, séu á listamannalaunum við flóttamannaflutninga sína. Ég naut tvisvar listamannalauna og þurfti þá að gera nákvæmlega grein fyrir því hvað ég var að gera, en ég fór þá m.a. í tónleikaferð út á land með Jónasi Ingimundarsyni og var að undirbúa flutning á Sköpuninni eftir Franz Joseph Haydn með Sinfóníuhljómsveit Íslands og fleiri verkefni af svipuðum toga. Núna gilda víst aðrar reglur um listamannalaun og hægt að eyða tímanum í að stunda listræna gjörninga sem aðgerðarsinni í Miðausturlöndum. Eins virðast aðjúnktar við Háskóla Íslands hafa tíma til að pikka upp flóttafólk í Egyptalandi á milli þess sem þeir stunda fræðistörf og kennslu við Háskólann. Þetta væri ekki hægt á mínum vinnustað, sem einnig er kostaður af skattfé almennings.“

Guðbjörn segir ennfremur:

„Er það hatursorðræða að elska sína eigin þjóð og vilja forgangsraða á þann hátt að á meðan að neyðarástand ríkir í landinu, þá beri okkur fyrst og fremst skylda til að bera hag allra þeirra sem nú þegar búa í landinu – útlendingar sem Íslendingar – fyrir brjósti. Er það ekki frumskylda íslenskra stjórnmálamanna að bera hag sinnar eigin þjóðar fyrir brjósti? Þurfum við ekki hreinlega að kjósa núna um hvaða forgangsröðun við viljum hafa á þeim knöppu fjármunum sem eru til staðar?“

 „Hvert einasta læk er lækaranum einnig til minnkunar“

Ingólfur Gíslason, kennari og baráttumaður, sem undanfarið hefur mjög beitt sér fyrir réttindum Palestínumanna og staðið fyrir átaki gegn greiðslumiðlunarfyrirtækinu Rapyd vegna stuðnings Rapyd við stefnu Ísraels, segir skrif Guðbjörns vera honum til minnkunar:

„Ég veit í alvöru ekki hvað á að kalla óhróður Guðbjörns Guðbjörnssonar tollvarðar um þá frábæru rithöfunda Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Kristínu Eiríksdóttur, sem eru báðar margverðlaunaðar. Sama á við um óhróðurinn gagnvart samstarfskonu minni Semu Erlu. Pistill Guðbjörns er honum til minnkunar en hann hefur fengið meira en 300 læk. Hvert einasta læk er lækaranum einnig til minnkunar.“

 Ingólfur bendir á að 20 milljaðar, kostnaðurinn vegna hælisleitenda á síðasta ári, sé ekki stór hluti af af heildarútgjöldum ríkisins:

„Sumir halda að innviðir Íslands séu að hrynja vegna þess að ríkið hefur varið 20 milljörðum í „útlendingamál“ á síðasta ári, þar af 10,8 vegna þjón­ustu við hæl­is­leit­end­ur. Þetta er mun hærri tala en var fyrir tveimur árum og aukningin er líklega eingöngu vegna fólks frá Úkraínu og Venesúela. Samt er tvennt mikilvægt í þessu (og sjálfsagt fleira):

 Upphæðin 20 milljarðar eru ekki mjög stór hluti af heildarútgjöldum ríkisins, sem eru áætluð um 1.500 milljarðar í ár. Ég fann töluna 1.480 á vef RÚV frá því í september á síðasta ári og setti því 1500 en tók þá eftir því að „ónákvæmnin“ er einmitt upp á 20 milljarða. Það skortir ekki peninga á landinu. Ísland er ekki fátækt land. Ísland er eitt ríkasta land í heimi. Hvaðan kemur sú fáránlega firra að samfélagið hafi ekki efni á að taka við flóttafólki? Það er ekki einu sinni atvinnuleysi. Ísland flytur inn fólk vegna þess að það skortir fólk í vinnu!“

Hverjum er kostnaðurinn að kenna?

Gústaf Níelsson tekur undir skrif Guðbjörns og segir:

„Stjórnvöld eiga að afturkalla þessar fjölskyldusameiningar, senda drengina heim og beita síðan fyrir sig neyðarrétti, þegar lögfræðingastóðið legst til atlögu við íslenska skattgreiðendur, sem mun auðvitað gerast í framhaldinu, eftir afturköllun. Þetta rugl verður að stöðva, strax.“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, veltir því hins vegar upp hver beri ábyrgð á kostnaðinum vegna hælisleitenda og vísar til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt dómsmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu undanfarin ár:

„Það þarf að spyrja risastórrar spurningar um hver ber ábyrgð á þessum kostnaði. Á sama tíma má spyrja hverjir eru búnir að vera með bæði dómsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið.

Ef fólk fær ekki sama svarið við þessum tveimur spurningum þá er það mjög áhugavert.“

 

Fréttinni hefur verið breytt. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Viðskiptavinir Krónunnar söfnuðu 4,5 milljónum fyrir Grindvíkinga

Viðskiptavinir Krónunnar söfnuðu 4,5 milljónum fyrir Grindvíkinga
Fréttir
Í gær

Gunnar Páll nýr framkvæmdastjóri ALVA framkvæmda

Gunnar Páll nýr framkvæmdastjóri ALVA framkvæmda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jakobi þykir nóg um: Vill vinda ofan af rukkunarblætinu á Íslandi

Jakobi þykir nóg um: Vill vinda ofan af rukkunarblætinu á Íslandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Altjón varð á leiguíbúð – Leigusali vildi hirða allt tryggingarféð og þrætt um hver átti ísskápinn

Altjón varð á leiguíbúð – Leigusali vildi hirða allt tryggingarféð og þrætt um hver átti ísskápinn