Nú síðast sagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í nýrri spá sinni að reiknað væri með 3,2% hagvexti í Rússlandi á árinu. Þetta er mun meiri hagvöxtur en spáð var í upphafi árs og þetta þýðir að hagvöxturinn vex hraðar en í nokkru vestrænu ríki, þar á meðal Bandaríkjunum. Þetta er auðvitað vatn á myllu Rússa.
En tölurnar sýna ekki hina raunverulegu stöðu segir í opnu bréfi frá Elisabeth Svantesson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, sem var birt í Financial Times. Hún segir í greininni að rússneska einræðisstjórnin noti upplýsingar frá alþjóðlegum fjármálastofnunum í áróðri sínum og til að grafa undan refsiaðgerðum Vesturlanda. Það sé mjög mikilvægt að takast á við röksemdafærslu Rússa og standa fast á því að við samþykkjum ekki þær tölur sem koma frá Kreml.
Bréfið er framhald af grein eftir átta evrópska fjármála- og efnahagsráðherra í The Guardian í lok júlí. Í þeirri grein fjalla ráðherrarnir um „lygasögu“ Pútíns um sterkt og traust efnahagslíf Rússlands. „Þetta er lygi sem þarf að andmæla. Það eru í raun mörg merki á lofti um að rússneskt stríðsefnahagslíf sé á fallanda fæti,“ segir í grein ráðherranna.
Uppblásið stríðshagkerfi
Í júl fól sænska ríkisstjórnin sænsku efnahagsstofnuninni að gera nákvæma greiningu á rússnesku efnahagslífi. Markmiðið er að fá fram hlutlausar staðreyndir. Greiningunni á að vera lokið í síðasta lagi 1. október.
TV2 segir að vandinn sé ekki að tölurnar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum stofnunum, til dæmis Alþjóðabankanum og OECD, séu ósanngjarnar. En vextinum í vergri þjóðarframleiðslu Rússa er nú haldið uppi með því að ríkisstjórnin dælir peningum inn í hagkerfið í formi launagreiðslna og fjárfestinga í framleiðslu á vopnum og hergögnum.
Útgjöld landsins til hernaðarmála hafa aukist mjög síðstu tvö ár og að því er segir í greiningu frá Stockholm International Peace Research Institute er reiknað með að framlög til hersins á þessu ári verði sem svarar til um 40.000 milljarða íslenskra króna.
„Gríðarleg fjárútlát Pútíns til hersins geta valdið tímabundinni aukningu í vergri þjóðarframleiðslu en sagan sýnir að núverandi stefna Rússlands getur endað með hörmungum,“ segir Svantesson í grein sinni.
Í greiningu, sem var birt í fjármálaritinu Fortune í síðustu viku, segja fjórir vestrænir sérfræðingar að „hörmungar kraumi undir efnahagsvextinum í Rússlandi“. Þeir segja að eins og staðan sé núna, sé erfitt að meta hina réttu stöðu rússneska efnahagslífsins því það verði að taka tölum frá Rússum með fyrirvara.
Rússar draga þó ekki bara upp rósrauða mynd af stöðunni því í uppfærðri spá rússneska fjármálaráðuneytisins um ríkisfjármálin frá í júní, kemur fram að hallarekstur ríkisins verði sem svarar til um 3.200 milljarða íslenskra króna á árinu.
Rússar eyða meiri peningum en þeir afla núna og hin mikla áhersla á herinn þýðir einnig að fjárfestingar í öðrum geirum hafa afleiðingar á hagvöxtinn til langs tíma. „Rússnesku fjárlögin eru í raun örvæntingarfull aðgerð á stríðstímum. Pútín kastar öllu í arininn og það er algjörlega ósjálfbært,“ segja sérfræðingarnir í greiningu sinni í Fortune.