

Endurskoðaður samgöngusáttmáli var kynntur þingflokkum stjórnarflokkanna á mánudag og er reiknað með að kostnaðurinn verði 310 milljarðar og framkvæmdatíminn standi yfir í 22 ár í stað 15 ára áður.
Í samtali við Morgunblaðið segir Jón að það sem hann leggur áherslu á við endurskoðun sáttmálans sé að farið verði að vinna að umferðarlausnum strax.
„Þannig að fólk fari að finna fyrir því að unnið sé að þessum málum en þurfi ekki að bíða í mörg ár eftir endanlegri lausn á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins.“
Hann gagnrýnir borgina fyrir seinagang í samgöngumálum og viðurkennir að hann hafi búist við meiru af nýjum borgarstjóra, Einari Þorsteinssyni. Þá segir hann að borgin hagi sér eins og „einhver kóngur“ í sáttmálanum. Nefnir hann að markmið sáttmálans séu skýr og greiða fyrir allri umferð; almenningssamgöngur, almenna umferð, hjólandi og gangandi. Borgin hafi hins vegar lagst þversum í öllu sem snýr að því að greiða fyrir bílaumferð.
„Hún er tilbúin til að greiða fyrir gangandi og hjólandi umferð og almenningssamgöngum, en það er skýrt að sáttmálinn fjallar um alla þætti samgangna og leggjum við Sjálfstæðismenn mikla áherslu á að við það verði staðið. Það er enginn smáræðis kostnaður fyrir einstaklinga og samfélagið sem tafir í umferðinni hafa í för með sér og kemur til vegna þvermóðsku Reykjavíkurborgar,“ segir Jón við Morgunblaðið.