fbpx
Föstudagur 04.október 2024
Fréttir

Eyrún fer hörðum orðum um Reiti og lífeyrissjóðina – Leyfa nikótínpúðabúð við þrjá skóla

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 12. ágúst 2024 18:00

Eyrún bendir á að þrír grunnskólar og fimm leikskólar séu í 500 metra radíus frá Grímsbæ.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyrún Magnúsdóttir, íbúi í hverfi 108 í Reykjavík, fer hörðum orðum um Reiti og eigendur þeirra lífeyrissjóðina sem leigi nikótínpúðaversluninni Svens rými í Grímsbæ. Verslunarmiðstöðin sé nálægt þremur grunnskólum.

„Nikótínpúðasölumönnum hefur, líkt og rafrettuseljendum, gengið stórvel að ná til unga fólksins hér á landi, enda starfa þeir nær óáreittir í skjóli sofandi stjórnvalda sem hafa enn ekki fundið leiðir til að halda aftur af uppgangi púðabransans eða rafrettna,“ segir Eyrún í aðsendri grein á Vísi í dag.

Seljendur púðanna auglýsi grimmt undir því yfirskini að verið sé að auglýsa púða án nikótíns. Auglýsingarnar séu undantekningarlaust baðaðar ferskleika og allt sé hreint og tært.

„Eitt af hverjum þremur ungmennum notar nikótínpúða ef marka mál Þjóðarpúls Gallup,“ segir Eyrún. „Allt var þetta í upphafi markaðssett sem vörn gegn reykingum, en hópurinn sem notar púðana er þó margfalt stærri en sá sem hefði nokkurn tímann átt á hættu að verða reykingum að bráð.“

Þrír grunnskólar og fimm leikskólar

Tilefni greinarinnar er að fasteignafélagið Reitir hafi leigt nikótínpúðaversluninni Svens rými í verslunarmiðstöðinni Grímsbæ við Bústaðaveg. Í 500 metra radíus eru þrír grunnskólar, það er Réttarholtsskóli, Fossvogsskóli og Snælandsskóli, með samanlagt um 1.200 nemendur. Þar að auki séu á svæðinu fimm leikskólar með samanlagt meira en 300 nemendur.

„Þessir nikótínpúðaneytendur framtíðarinnar geta núna gengið framhjá vörumerki Svens dag hvern og haft það fyrir augunum þegar farið er í ísbúðina, búðina eða á pizzastaðinn í Grímsbæ,“ segir Eyrún. „Markaðssetning nikótínsalanna gengur einmitt út á að normalísera, byggja upp vörumerki sem er jafn sjálfsagt að sjá í verslunarkjarna og hverja aðra matvörubúð.“

Nefnir Eyrún að heilbrigðisráðherra hafi lengi talað um að stemma stigu við rafrettum og nikótínpúðum en lítið hafi gerst í þeim efnum.

Nammi rutt úr hillum fyrir nikótín

Svens í Grímsbæ er ekki eina nikótínverslunin við Bústaðaveg. Þar er líka rafrettubúðin Póló í húsi sem áður hýsti sjoppu. Segir Eyrún að blandi í poka hafi einfaldlega verið rutt úr hillunum og rafrettum komið fyrir í staðinn.

„Nú fær skólahverfið í ofanálag sérhæfða nikótínpúðaverslun í Grímsbæ, þannig að Bústaðavegurinn verður helsta nikótíngata borgarinnar. Mikið úrval af vökva í rafrettur og alls konar púðar í boði. Nikótínsala blómstrar því sem aldrei fyrr, þótt sígarettuformið sé á undanhaldi,“ segir Eyrún og spyr hvers vegna þetta fái að gerast í miðju íbúðahverfi, í göngufæri frá Víkinni.

Nikótínstræti

Eins og fyrr segir beinir Eyrún spjótum sínum að Reitum, sem eru að meirihluta í eigu lífeyrissjóðanna. Stærstu hluthafarnir eru Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Birta.

Bendir hún á að samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri sé rekstur Reita blómlegur. Félagið ætti því að vera í aðstöðu til að stýra því hvers konar starfsemi velst inn í Grímsbæ. Það er starfsemi sem styðji við samfélagið en rífi það ekki niður.

Þá vísar hún einnig í stefnu Reita um samfélagslega ábyrgð. En þar segir meðal annars að stuðla eigi að félags og efnahagsmálum með heilbrigði og velferð samfélagsins að leiðarljósi og að draga eigi úr hugsanlegum skaðlegum áhrifum af starfseminni.

„Vandséð er hvernig það að troða nikótínpúðasölu inn í gróinn verslunarkjarna í miðju skólahverfi fellur að þessum markmiðum, enda ættu skaðleg áhrif sölu nikótínpúða öllum að vera ljós. Á samfélagslega ábyrgðin kannski ekki við þarna?“ spyr Eyrún. „Nikótínpúðar og rafrettur verða nú enn meira fyrir augunum á börnum og unglingum í hverfi 108, þökk sé Reitum fasteignafélagi, lífeyrissjóðunum okkar og heilbrigðisyfirvöldum sem gera lítið til að stoppa uppgang nikótínpúðabransans. Bústaðavegurinn gæti jafnvel bara skipt um nafn og heitið Nikótínstræti.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Jón Steinar: „Nú eru mér að fallast hendur í stuðningi við þennan flokk“

Jón Steinar: „Nú eru mér að fallast hendur í stuðningi við þennan flokk“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Segja „góðar sannanir“ fyrir að kínversk fyrirtæki sjái Rússum fyrir drónum til hernaðarnota

Segja „góðar sannanir“ fyrir að kínversk fyrirtæki sjái Rússum fyrir drónum til hernaðarnota
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Verðbólgudraugurinn hrellir Þröst Leó

Verðbólgudraugurinn hrellir Þröst Leó
Fréttir
Í gær

Arnar Björn kynntist konu á samskiptaforriti og nauðgaði henni 10 dögum síðar – 2 og hálfs árs dómur staðfestur

Arnar Björn kynntist konu á samskiptaforriti og nauðgaði henni 10 dögum síðar – 2 og hálfs árs dómur staðfestur
Fréttir
Í gær

Ari Trausti segir eldgos ógna hugsanlegu flugvallarstæði í Hvassahrauni

Ari Trausti segir eldgos ógna hugsanlegu flugvallarstæði í Hvassahrauni
Fréttir
Í gær

Bíræfnir bófar á ferð í sumarhúsahverfum – Brutu upp gáma og stálu dósum frá björgunarsveit

Bíræfnir bófar á ferð í sumarhúsahverfum – Brutu upp gáma og stálu dósum frá björgunarsveit
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur fagnar innilega útspili Arion og skorar á aðra

Vilhjálmur fagnar innilega útspili Arion og skorar á aðra
Fréttir
Í gær

SFS segja að reka þurfi fiskvinnslufólk ef ríkið hætti að borga laun í hráefnisskorti – Þurfa ekki að borga uppsagnarfrest

SFS segja að reka þurfi fiskvinnslufólk ef ríkið hætti að borga laun í hráefnisskorti – Þurfa ekki að borga uppsagnarfrest