Það kom mjög á óvart þegar Vladímír Pútín, forseti, skipti varnarmálaráðherra sínum síðustu 12 árin, Sergei Shoigu, út og setti hagfræðinginn Andrei Belousov í embættið. En það voru kannski ákveðnir fyrirboðar að þessari breytingu því tveimur viku áður var Timur Ivanon, varavarnarmálaráðherra, handtekinn. Hann hafði gegnt stöðunni síðustu átta árin og bar meðal annars ábyrgð á rekstri fasteigna hersins og herbúðum í Úkraínu. Er hann grunaður um spillingu.
Það fór svo sem ekki leynt að hann og fjölskylda hans lifðu í vellystingum. Þau áttu meðal annars 1.600 fermetra sumarhús á vinsælu svæði vestan við Moskvu. Þau áttu einnig hús í Moskvu og leigðu einbýlishús í Saint-Tropez á frönsku ríveríunni fyrir að minnsta kosti 850.000 evrur.
Þau áttu einnig Rolls-Royce, Bentley og Aston Martin bíla að því er segir í nýlegri úttekt samtaka Aleksei Navalny en þau berjast gegn rússneskum stjórnvöldum og spillingunni sem einkennir rússnesk stjórnmál.
Þetta verður að teljast ágætur lífsstíll hjá embættismanni sem var með sem svarar til um 20 milljóna íslenskra króna í árslaun.
Í kjölfar ráðherraskiptanna hafa háttsettir herforingjar verið handteknir og rannsókn stendur yfir á málum fjölmargar starfsmanna hersins og varnarmálaráðuneytisins.
Shoigu var komið fyrir sem ritara öryggisráðs Pútíns. Það er mikilvægt ráð sem sér um samhæfingarstarf en þykir ekki valdamikið.
Nýi ráðherrann
Belousov, sem er 65 ára, er þekktur innan rússneska stjórnkerfisins en hann hefur gegnt nokkrum lykilembættum.
Almenningur þekkti kannski ekki svo mikið til hans áður en hann tók við embættinu en sumir höfðu þó væntanlega heyrt um þennan duglega teknókrata og fróman meðlim rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.
En nýlega birtist grein í Dossier, sem er rússneskur miðill sem er starfræktur utan Rússlands, þar sem þessari mynd af Belousov er hnekkt.
Dossier hafði aðgang að fjölda tölvupósta Belousov og segir að einkalíf hans sé nú ekki eins slétt og fellt og hann heldur fram. Hann hefur átt eignir utan Rússlands og innistæður í bönkum í ESB.
En það vekur kannski mesta athygli að árum saman virðist hann hafa gegnt mikilvægu hlutverki við að fjármagna rekstur Wagner-hópsins.
Hann er kannski ekki eins mikill prinsippmaður og hann lætur í skína. Dossier segir að hann hafi í gegnum árin veitt mörgum ástkonum sínum stöðuhækkun og komið ættingjum sínum í mjög vellaunuð embætti.