Framsókn Rússanna varð til þess að Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, hvatt Vesturlönd enn einu sinni til að leyfa Úkraínumönnum að nota vopnagjafir frá Vesturlöndum til árása á rússneskt landsvæði. Þannig geti þeir tekist á við sókn Rússana.
Umræðan um þetta fór á mikið flug í síðustu viku, ekki síst eftir að Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATÓ, hvatti aðildarríki bandalagsins til að heimila Úkraínumönnum að nota vopnagjafirnar til árása á rússneskt landsvæði.
Nú hafa Bandaríkin, Bretland, Danmörk, Svíþjóð, Þýskaland og Frakkland veitt Úkraínumönnum heimild til að gera þetta.
Kenneth Buhl, hernaðarsérfræðingur við danska varnarmálaskólann, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að þessi ákvörðun geti „breytt styrkleikahlutföllunum“ á milli Úkraínu og Rússlands og haft afgerandi áhrif á þróun mála í Kharkiv.
Hann sagði að þessi ákvörðun vestrænna ríkja geti meðal annars skipt máli varðandi svifsprengjurnar sem Rússar hafa notað af miklum móð síðustu mánuði. Framvegis eigi Úkraínumenn meiri möguleika á að flugvélarnar sem fljúga með svifsprengjurnar inn yfir Úkraínu. Það muni breyta styrkleikahlutföllunum mikið. Fram að þessu hafi Rússar næstum verið í skjóli á rússnesku landsvæði og því muni það hafa mikil áhrif að nú mega Úkraínumenn nota vestrænar vopnagjafir til árása á rússneskt landsvæði.