Maður sem gekkst undir aðgerð á Landspítala og glímdi í kjölfarið við vanheilsu í um fjögur ár hefur fengið viðurkennda skaðabótaskyldu íslenska ríkisins vegna þess tjóns sem hann varð fyrir. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í málinu þann 28. maí síðastliðinn.
Maðurinn, sem átti langa sjúkrasögu að baki, gekkst undir aðgerð á Landspítalanum í ágústmánuði árið 2013 sem miðaði að því að fjarlægja úr honum garnapoka og koma í staðinn fyrir útvortis stóma. Rof varð í garnavegg sjúklings við aðgerðina sem olli því að mikið hægðainnihald var í kviðarholi. Þetta olli manninum miklum sýkingum. Enduraðgerð var framkvæmd á sjúklingnum tveimur dögum síðar en að hans mati var hún ekki rétt framkvæmd. Niðurstaða matsmanna sem sjúklingurinn kvaddi til var sú að það hefði átt að taka hann 12 vikur í mesta lagi að jafna sig eftir aðgerðina en hann var fjögur ár að jafna sig, með tilheyrandi vinnutapi og lífsgæðaskerðingu.
Maðurinn krafðist viðurkenningar á bótaskyldu ríkisins vegna þriggja þátta. Í fyrsta hafi saknæm mistök verið gerð í fyrri aðgerðinni. Í öðru lagi hafi verið gerð saknæm mistök með þeirri ákvörðun að bíða í tvo daga með að framkvæma enduraðgerðina og í þriðja lagi hafi enduraðgerðin verið rangt framkvæmd.
Í niðurstöðu dómsins er bent á að samkvæmt matsgerðinni sem stefnandi teflir fram séu ekki talin sönnuð mistök í fyrstu tveimur liðunum en hins vegar er það niðurstaða matsmanna að enduraðgerðin hafi ekki verið rétt framkvæmd. Í niðurstöðukafla dómsins segir svo um þetta: „Nánar tiltekið hefði að þeirra mati verið rétt að fjarlægja görnina frá garnarofinu og niður að garnastómanu og útfæra þannig nýtt garnastóma í stað þess að endurtengja mjógirnið. Skynsamlegast hefði enda verið að forðast í lengstu lög endurtengingar í sýktu kviðarholinu. Sú ályktun er jafnframt dregin í matsgerðinni að hefði enduraðgerðin verið framkvæmd án þarmatengingar væru umtalsverðar líkur á því að tjón stefnanda hefði orðið minna og sá tími sem hann hefði þurft til að ná fullri heilsu hefði að öllum líkindum orðið töluvert styttri, sennilegast í kringum átta til 12 vikur í stað fjögurra ára.“
Landspítalinn neitaði sök í málinu og hafnaði niðurstöðum matsgerðarinnar. Dómari benti á að Landspítalinn hefði ekki farið fram á yfirmatsgerð og því myndi hann styðjast við matsgerðina sem sjúklingurinn fékk gerða.
Niðurstaðan er því sú að héraðsdómur viðurkennir skaðabótaskyldu íslenska ríkisins vegna tjóns mannsins sem varð vegna mistaka við læknismeðferð á Landspítalanum þann 29. ágúst árið 2013.
Dóminn má lesa hér.