Óhugnanlegur atburður átti sér stað aðfaranótt þriðjudagsins 20. apríl árið 2021, í fjölbýlishúsi við götuna Bjarkarholt í Mosfellsbæ. Kona sem í dag er fertug að aldri stakk þá karlmann um fimmtugt ítrekað með 15 sentimetra löngum hnífi. Í ákæru saksóknara sem DV hefur undir höndum segir að maðurinn hafi fengið 5 cm langan skurð á aftanverða vinstri öxl og djúpan skurð í vinstri hnésbót svo af hlaust skaði á taug.
Héraðsaksóknari krefst þess að konan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er krafist upptöku á hnífnum sem konan beitti í árásinni.
Árásarþolinn krefst fimm milljóna króna í miskabætur.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness þann 4. júní næstkomandi.