Lögregla handtók mann grunaðan um innbrot í heimahús í miðborginni á ellefta tímanum í gærkvöldi, en hann fannst skammt frá vettvangi með peninga og verðmæti sem hann gat ekki gert grein fyrir. Maðurinn var í mjög annarlegu ástandi, að sögn lögreglu, og var vistaður í fangaklefa uns hægt verður að ræða við hann.
Á þriðja tímanum var svo tilkynnt um annað innbrot í heimahús en þar hafði þjófavarnarkerfi farið í gang. Lögregla fór strax á vettvang og var einn maður handtekinn á vettvangi grunaður um innbrotið. Sá var með meint þýfi á sér og var vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.
Á fimmta tímanum í morgun var svo tilkynnt um þriðja innbrotið en það var framið í kjörbúð miðsvæðis í Reykjavík. Sá sem tilkynnti innbrotið gat lýst þeim sem voru að brjóta sér leið inn í verslunina og voru tveir menn handteknir skammt frá vettvangi grunaðir um innbrotið.