Stefán Einar Stefánsson, stjórnandi þáttarins Spursmál á mbl.is, birtir hvassan pistil á Facebook í morgun þar sem hann svarar fyrir, að hans mati, ómaklega gagnrýni á þáttinn.
Stefán hefur spurt forsetaframbjóðendur sem hafa verið til viðtals í þættinum nærgöngulla spurninga og vakti viðtal hans við Höllu Hrund Logadóttur mikla úlfúð.
Stefán Einar spurði Höllu Hrund til að mynda ágengna spurninga um þá staðreynd að tug milljóna greiðslur hafa runnið frá Orkustofnun til verktaka sem eiga það sameiginlegt að vera í innsta hring kosningateymis Höllu Hrundar. Þá skaut hann föstum skotum á Höllu Hrund fyrir það að flagga því reglulega að hún hafi alist upp í blokk en foreldrar hennar hófu byggingu einbýlishúss í Árbæ þegar Halla Hrund var 12 ára gömul.
Þá vakti það kurr meðal stuðningsmanna Baldurs Þórhallssonar þegar Stefán Einar spurði hann út í mynd sem sögð var tekin í kynlífsklúbb í París fyrir fjölmörgum árum og hvort það hefði áhrif á ímynd forsætisembættisins yrði hann kjörinn forseti.
Einn forsetaframbjóðendanna, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, sakaði Stefán Einar um að ganga erinda meintrar skrímsladeildar Sjálfstæðisflokksins sem hafi það að markmiði að tryggja Katrínu Jakobsdóttur forsetaembættið. Réðst hún síðan gegn Stefáni Einari og eiginkonu hans, Söru Lind Guðbergsdóttur, settum orkumálastjóra, og sagði að þau standi saman við að grafa undan framboði Höllu Hrundar og hvattti hún kjósendur til að „trúa ekki orði sem kemur úr þeirri átt“.
Hatrammar umræður um þessi skrif geisuðu á Facebook í gær þar sem Stefán Einar varði sig af hörku og átti meðal annars í orðaskaki við Gunnar Smára Egilsson, ritstjóra Samstöðvarinnar.
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, tekur upp hanskann fyrir þátt Stefáns Einars í pistli á vefsíðu sinni. Hann segir:
„Nú er tekið til við að ófrægja Stefán Einar vegna viðtalanna. Einn frambjóðandi, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, segir augljóst að hann sé á mála hjá „áróðursmaskínu Íslands“ sem hún tengir að eigin hætti og með árás á eiginkonu Stefáns Einars við Sjálfstæðisflokkinn. Hún setur sig á háan hest og segir engan hafa kennt Stefáni Einari „mannasiði“. Hvetur hún lesendur sína til að „afskrifa“ Stefán, svona vinni „engir almennilegir blaðamenn“.
Í raun verður ekki annað séð en Stefán Einar vinni einmitt í þeim anda sem blaðamannafélagið auglýsti, hann setji hlutina í samhengi og skýri þá með hag almennings að leiðarljósi. Hann leggur fram spurningar um efni sem snýr að frambjóðendunum. Réttilega beinist athyglin að svörunum frekar en spurningunum þótt Steinunn Ólína og þeir sem eru henni sammála vilji hafa það á hinn veginn.“
Stefán Einar segir í pistli sínum að það sé gott hjá Birni „að benda á hversu undarlegt, ósmekklegt og óverjandi það er hvernig fólk hefur dregið eiginkonu mína inn í þetta mál og gert hana tortryggilega, fullkomlega að ósekju. Þar fer manneskja sem tengist þessu máli ekkert og hefur unnið sér það eitt til saka að sinna sínum verkum af trúmennsku og án þess að trana sér sérstaklega fram.“
Stefán Einar vísar meðal annars til skrifa fjárfestisins, Vilhjálms Þorsteinssonar, sem hann kallar ómerkilegan níðhögg, og vísar einnig til þess að Vilhjálmur hafi átt eignir í skattaskjóli:
„Hafa ómerkilegir menn á borð við Vilhjálm Þorsteinsson (Tortóla-trymbillinn) flutt hálfkveðnar vísur um að hún hafi lekið gögnum frá þeirri stofnun sem hún veitir forstöðu til Morgunblaðsins. Þarna er vegið alvarlega að mannorði manneskju sem aldrei ber hönd fyrir höfuð sér opinberlega og situr undir þessu níði. Vilhjálmi og öðrum ómerkilegum níðhöggum gæti orðið það til hugarhægðar að vita að allar þær upplýsingar sem Morgunblaðið hefur skoðað í tengslum við embættisfærslu Höllu Hrundar voru annað tveggja komnar til blaðsins áður en frambjóðandinn fór í leyfi frá sínum störfum hjá Orkustofnun, eða liggja fyrir allra augum á síðunni Opnir reikningar.
Þeir munu þó ekki, eins og reynslan sýnir, láta sér segjast. Vilhjálmur og félagar láta sér fátt um finnast. Þá skortir sómakennd til að sjá að sér.“