Þann 8. maí næstkomandi verður aðalmeðferð við Héraðsdóm Reykjavíkur í máli manns sem ákærður hefur verið fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni. Þinghald í málinu er lokað.
DV hefur ákæru héraðssaksóknara í málinu undir höndum. Maðurinn er ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni og brot í nánu sambandi, en brotin áttu sér stað í fjölda skipta á árunum 2020 til 2021, á heimili mannsins og barnsins. Er maðurinn sagður hafa áreitt stjúpdóttur sína er hún var sjö til átta ára, þar sem hún lá við hlið hans í rúmi, strokið yfir bak hennar og bringu innanklæða og strokið og snert kynfæri hennar og rass innanklæða og í hluta skiptanna fróaði ákærði sér við hlið hennar.
Héraðssaksóknari segir að með þessu hafi hinn ákærði ógnað lífi, heilsu og velferð stúlkunnar. Er krafist þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd barnsins er gerð krafa um miskabætur upp á fimm milljónir króna.
Vænta má dóms í málinu snemma í júní.