fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Alræmdur glæpamaður laus undan bagga fortíðar í augum dómara -„Ég skal berja og lemja þig alveg eins og harðfisk“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 18. apríl 2024 13:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óskar Svanur Barkarson hefur verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir hótanir gegn fyrrverandi maka og brot gegn nálgunarbanni.

Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 4. apríl, en fyrrum maki Óskars hafði kært hann fyrir ítrekaðar hótanir gegn sér. Óskar kallaði konuna hóru og hótaði henni ítrekað barsmíðum fyrir að slíta sambandinu við hann, sem og lífláti. Hótanirnar bar hann fram með skilaboðum, símtölum og í eigin persónu en dæmi um skilaboð sem hann sendi sinni fyrrverandi eru:

  • Komdu ég er að bíða hóra
  • Trúðu mér ég skal stúta þér þú ert ógeðsleg
  • Ég drep þig
  • Ég skal berja og lemja þig alveg eins og harðfisk
  • Vá hvað ég ætla að berja þig auminginn þinn fyrir að fara svona illa með mig.

Konan hafði fengið nálgunarbann gegn Óskari sem hann hafði þó virt að vettugi en hann hélt þrátt fyrir bannið áfram að áreita konuna með tölvupóst og skilaboðum.

Lögreglan var vitni

Fram kom í dómi að konan hafði haft samband við lögreglu árið 2022 eftir að Óskar hafði í  hótunum við hana. Lítið þýddi fyrir Óskar að þræta fyrir það þar sem eftir að lögregla kom á vettvang barst konunni símtal og heyrði lögregla þá sjálf hvernig Óskar hótaði barsmíðum. Svo óheppilega vildi til að þegar símtalið var sett á „speaker“ svo lögregla gæti  heyrt þá varð barn vitni að hótunum og var eðlilega brugðið.

Í kjölfar var lýst eftir Óskari og hann handtekinn skömmu síðar eftir að hann fannst í felum. Við handtöku gekkst Óskar við háttseminni en sagðist muna takmarkað hvað hann hefði sagt enda hefði hann verið drukkinn. Hann hafi þó aðeins ætlað að hræða konuna en ekki ætlað sér að gera alvöru úr hótunum.

Fyrir dómi bar konan að á þessum tíma hafi hún verið í sambandi við annan mann. Sá hafi verið ofbeldisfullur gegn henni og því skiljanlegt að Óskar hafi verið reiður. Hún hafi ekki haft nein tök á aðstæðum í lífi sínu á þessum tíma, í sambandi við ofbeldismann og undir stöðugu áreiti frá Óskari vegna þess.

Maðurinn sem sagðist enginn engill var samt engill í augum dómara

Það vekur athygli að í niðurstöðu sinni segir dómari að ákærði hafi ekki áður gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum.

Óskar á nefnilega langan brotaferil að baki. Hann kom meðal annars við sögu í harðvígum deilum Gilberts Grétars Sigurðssonar og Hilmars Leifssonar en í samtali við DV árið 2016 kom fram að Gilbert hefði kært Óskar, Hilmar og tvo menn af erlendum uppruna fyrir líkamsárás sem átti sér stað fyrir utan World Class Laugum. Árið 2004 var Óskar dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir tvær alvarlegar líkamsárásir. Annars vegar hafði Óskar kinnbeinsbrotið mann fyrir að flauta á bíl hans og hins vegar veitt ungum manni alvarlega stunguáverka með skærum og barsmíðum. Áður hafði hann margsinnis hlotið dóma fyrir ofbeldis- og fíkniefnabrot. Ári síðar var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að ráðast á tvo lögreglumenn sem höfðu haft afskipti af honum. „Ég er enginn engill, en ég vissi ekki að þetta væri lögreglan,“ sagði Óskar þá fyrir dómi til að verja árásina.  Árið 2010 var Óskar dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot eftir að hafa staðið að innflutningi á tæplega 1,5 kílói af kókaíni.

Líkur má leiða að því að orð dómara vísi til þess að ekkert brot sé að finna á sakavottorði Óskars, en eins og greint er frá hér að ofan þá var hann seinast sakfelldur árið 2010 en brot fyrnast á sakavottorði til yfirvalda eftir 10 ár. Aldrei kom til útgáfu ákæru vegna líkamsárásar á Gilbert.

Ekki er um að ræða að hér sé farið mannavillt enda á Óskar engan alnafna. Dómurinn vekur spurninguna hvort ekki sé eðlilegra að rekja að sakamaður hafi hreint sakavottorð frekar en að fullyrða í niðurstöðu, í tilfelli þekktra brotamanna eins og Óskars: „Hann hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum“. En dómari leit á hreint sakavottorð Óskari til málsbóta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Óhugnanleg aðkoma lögreglumanna á Akureyri – „Hún er bara dáin“

Óhugnanleg aðkoma lögreglumanna á Akureyri – „Hún er bara dáin“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“
Fréttir
Í gær

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir
Fréttir
Í gær

Var með mikið magn af OxyContin innvortis

Var með mikið magn af OxyContin innvortis