Héraðssaksóknari hefur ákært mann vegna atvika sem áttu sér stað við bílskúr í götunni Hátún í Reykjanesbæ, haustið 2022.
Maðurinn er ákærður fyrir þrjú brot gegn valdstjórninni. Hann er í fyrsta lagi sakaður um að hafa sparkað í tvo lögreglumenn, kastað lauasmöl í þá og hótað þeim lífláti.
Í öðru lagi er hann sakaður um að hafa ógnað þremur lögreglumönnum með borðfæti „og þannig hótað þeim líkamsmeiðingum í verki,“ eins og segir í ákæru.
Í þriðja lagi er maðurinn sakaður um að hafa bitið einn lögreglumanninn í hægra læri með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn fann til vægra eymsla á bitstað.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaður.
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Reykjaness þann 26. mars næstkomandi.