Mikið hefur verið fjallað um sigur Heru Bjarkar Þórhallsdóttur í Söngvakeppninni fyrir rúmri viku þar sem hún sló Bashar Murad ref fyrir rass í einvígi þeirra á milli.
Sjá einnig: Ósáttur við meðferðina á Heru: „Hér er fólk að slátra henni á samfélagsmiðlum“
Ýmsir hafa kallað eftir því að Hera hætti við að fara til Svíþjóðar til þátttöku í Eurovision þar sem Ísrael verður á meðal þátttakenda. Sjálf hafði Hera sagt að hún myndi fara til Svíþjóðar ef henni stæði það til boða.
Bubbi segir í færslu á Facebook-síðu sinni:
„Hera Björk vann þessa blessuða keppni. Hún ákvað að fara til Svíþjóðar og syngja, það er hennar val, óþarfi að pönkast í henni. Þó einhverjir séu ósammála líkar mér ekki hvernig fólk kemur fram við hana á samfélagsmiðlum. Hún tók þátt af heilindum og góðri trú. Látið hana í friði.“
Margir taka undir með Bubba og er Þórunn Erna Clausen og útvarpsmaðurinn Ívar Guðmundsson í þeim hópi. „Svo sammála,“ segir Ívar.