Þeir hafa tengt pakkann við stöðuna á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og þar að auki hefur Donald Trump, sem hefur nú góð tök á Repúblikanaflokknum, látið andstöðu sína við pakkann í ljós. Þess utan hefur hann sáð efasemdum um stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu og NATO í framtíðinni.
En Bandaríkjamenn ættu að hugsa sig vel, bæði hvað varðar fortíðina og framtíðina. Þetta sagði Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, í viðtölum við bandaríska fjölmiðla um síðustu helgi.
Hann benti á að aðeins einu sinni hafi reynt á fimmtu grein NATÓ-sáttmálans, sem kveður á um að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll, og það hafi verið vegna hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001. „Vegna beiðni Bandaríkjanna sendum við hersveit til Afganistan og þar á undan sendum við herdeild til Írak. Þegar verkefninu var lokið, sendum við ekki einu sinni reikning til Washington. Það var bandalagið sem hjálpaði Bandaríkjunum, ekki bara bandamennirnir,“ sagði Sikorski í samtali við CNN og bætti við að hik Bandaríkjanna geti haft alvarlegar afleiðingar.
„Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu hafa Evrópuríki keypt bandarísk hergögn fyrir 90 milljarða dollara. Pólverjar hafa á aðeins lengra tímabili keypt hergögn fyrir 50 milljarða dollara: Apacheþyrlur, HIMARS, Abrams skriðdreka, F-35 orustuþotur. Við kaupum þetta ekki bara af því að búnaðurinn ykkar er góður, heldur einnig til að halda góðu sambandi við mikilvægasta bandamann okkar,“ sagði hann.
Í samtali við Bloomberg sagði hann að það muni hafa „alvarlegar afleiðingar“ fyrir Bandaríkin ef þau standa ekki við sitt og það muni hafa í för með sér að sum ríki muni fara aðrar leiðir og enn önnur muni koma sér upp kjarnorkuvopnum.
Hvað varðar Pólland þá vita Pólverjar vel hvað þeir vilja ekki: „Við ætlum ekki að verða rússnesk nýlenda á nýjan leik,“ sagði Sikorski.