fbpx
Laugardagur 24.maí 2025
Fréttir

Reynir lýsir einstæðu afreki á Suðurnesjum – „Ótrúlegt hve allir eru samstilltir við að gera allt sem þarf til að ná árangri hratt“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 17. febrúar 2024 13:00

Mynd: HS Orka

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reynir Sævarsson, verkfræðingur og stjórnarformaður EFLU, segir að einstakt afrek – og í raun mörg afrek – hafi verið unnin í aðdraganda þess að tókst að koma heitu vatni á ný inn á hús á Suðurnesjum á mettíma, eftir að eldgos og hraunrennsli hafði valdið skemmdum á lögnum.

Reynir rekur þessa innviðabjörgun allt frá þarsíðasta gosi í janúar og aðkomu sína að henni eftir að Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra kallaði hann til verka. Hann segir mikilvægt að hafa í huga að slagnum við náttúruöflin er engan veginn lokið og brýnt sé að byggja upp kerfi sem tryggi fullt þjónustustig við íbúa sama hvað náttúruöflin taka upp á. Þar sé um að ræða kostnaðarsamt en nauðsynlegt samvinnuverkefni. Pistillinn birtist hér með góðfúslegu leyfi höfundar:

„Síðustu vikur hafa verið heldur óvenjulegar hjá mér í vinnunni. Þegar gaus nærri Grindavík í janúar og hraunrennsli tók út allar veitutengingar við bæinn var ég kallaður til af Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra til að aðstoða við og samhæfa aðgerðir við að koma á tengingum að nýju eins hratt og hægt væri. Með frábærri samvinnu allra veitufyrirtækja, bæjarstarfsmanna, verktaka, ráðgjafa, efnissala, almannavarna, björgunarsveita, sérsveitarmanna og húseigenda tókst að koma hita og rafmagni á að nýju í tæka tíð áður en mannlaus húsin urðu fyrir frostskemmdum.

Enn var verið að vinna að frekari lagfæringum í Grindavík þegar andstæðingurinn tók svo upp á því tæpum mánuði síðar að slíta í sundur hitaveituæðina sem útvegar 27 þúsund manna byggð á Suðurnesjum heitt vatn. Nú voru aftur góð ráð dýr því ólíkt fyrra atvikinu þurftu íbúar að bíða eftir viðgerðum í kólnandi húsum sínum, ungir sem aldraðir. Um einum og hálfum sólarhring frá því stofnæðin rofnaði var tengt inn á nýja lögn sem búið hafði verið að koma fyrir neðanjarðar en lá nú undir hrauninu. Í fyrstu virtist sem aðgerðin hefði heppnast og vatn rann um pípuna en nokkrum tímum síðar varð ljóst að lögnin hafði rofnað á margra metra dýpi í miðju glóandi hrauninu þar sem útilokað var að gera við. Ljóst var að eina leiðin væri að leggja nýja lögn, mörghundruð metra leið og allt þetta fólk þyrfti að bíða mun lengur eftir því að húsin þeirra hitnuðu og hitastigið úti var -10 gráður!

Haldinn var fundur á miðnætti aðfaranótt laugardagsins fyrir nákvæmlega viku með veitufyrirtækjunum og verktökunum sem unnið hafa að gerð varnargarða og breytingum á stofnlögnum á svæðinu. Hönnuð var lausn sem fólst í að gera veg beint yfir glænýtt hraunið og sjóða saman yfir 400 m langa 500 mm svera stállögn úr lagnaefni sem til var á svæðinu á mettíma, annað var ekki í boði.

Ég leyfi mér að efast um að nokkurn tímann í mannkynssögunni hafi slík vegagerð átt sér stað og eins tel ég að sú suðuvinna sem þarna var unnin sé einstakt afrek. Ráðinn var til verksins fjöldi suðumanna og vélamanna og þrjár vaktir skipulagðar til að verkið fengi fullan framgang allan tímann. Þessari vinnu lauk á innan við 50 klukkustundum sem er langt undir því sem reiknað var með. Þótt þetta hafi gengið svona hratt var orðið ansi kalt í byggðinni og þar var enn eitt afrekið unnið því íbúarnir og veitufyrirtækið unnu saman að því að kynda húsin með rafmagni án þess að ofbjóða dreifikerfinu í bænum. Þarna kom sér vel að HS Veitur höfðu komið snjallmælum fyrir í öllum húsum og gat sent skilaboð á þá sem voru að nota of mikið rafmagn og íbúarnir dróu þá úr notkun.

Mitt verkefni var ansi fjölbreytt, fyrst og fremst að halda yfirsýn og miðla upplýsingum og samhæfa aðgerðir en einnig að meta lausnir, finna til efni og vinna leiðbeiningar til íbúa. Ég sat á rassinum allan tímann og hringdi yfir 200 símtöl og fók óteljandi Teamsfundi á fáeinum dögum en innst inni hefði mig mest langað að vera á staðnum á einni gröfunni

Þetta hefur verið afar gefandi samvinna með frábæru fólki á öllum vígstöðvum. Ótrúlegt hve allir eru samstilltir við að gera allt sem þarf til að ná árangri hratt. Allir í sama liði og allir til í að færa nauðsynlegar fórnir. Algjörlega ný reynsla fyrir mig að vinna í samhæfingarstöð almannavarna þar sem unnið er hratt en örugglega. Skemmtilega ólíkt yfirvegaða umhverfinu á verkfræðistofunni og bara hollt og lærdómsríkt að keyra upp hraðann aðeins.

Framundan er síðan að vera sem best undirbúin fyrir næsta slag við náttúruöflin og að vinna að því að auka öryggi afhendingar á orku og vatni á svæðinu. Það er lengri tíma samvinnuverkefni margra aðila, fyrst að búa svo um að við getum komist af hvað sem gerist og síðan að byggja upp kerfi sem heldur uppi fullu þjónustustigi við íbúa hvað sem náttúran tekur upp á að gera. Það mun sannarlega kosta en við verðum að muna að einmitt sama eldvirkin hefur gert okkur kleift að afla mikillar og ódýrrar orku um áratuga skeið. Núna er bara smá skref til baka til að minna okkur á hvað við höfum það nú svakalega gott venjulega.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Augnablikið þegar kafbáturinn féll saman – Eiginkonan: „Hvaða hvellur var þetta?“

Augnablikið þegar kafbáturinn féll saman – Eiginkonan: „Hvaða hvellur var þetta?“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Íslenskur leigusali í miklum vanda og óttast um aleiguna – „Leigjandi minn er fíkill“

Íslenskur leigusali í miklum vanda og óttast um aleiguna – „Leigjandi minn er fíkill“
Fréttir
Í gær

Fá ekki að hafa svalalokanir eins og nágrannarnir

Fá ekki að hafa svalalokanir eins og nágrannarnir
Fréttir
Í gær

Sala á Perlunni samþykkt – Greidd með 13 árlegum afborgunum og óljós ákvæði um mögulega frekari greiðslur

Sala á Perlunni samþykkt – Greidd með 13 árlegum afborgunum og óljós ákvæði um mögulega frekari greiðslur
Fréttir
Í gær

Læknar segja öryggi sjúklinga ógnað fái aðrir að ávísa lyfjum – „LÍ telur þessa fullyrðingu dapurlega og í versta falli hlægilega“

Læknar segja öryggi sjúklinga ógnað fái aðrir að ávísa lyfjum – „LÍ telur þessa fullyrðingu dapurlega og í versta falli hlægilega“
Fréttir
Í gær

Bassi Maraj ákærður fyrir líkamsárás á leigubílstjóra – Hafi vafið posasnúru um háls hans og kýlt í ennið

Bassi Maraj ákærður fyrir líkamsárás á leigubílstjóra – Hafi vafið posasnúru um háls hans og kýlt í ennið
Fréttir
Í gær

Egill segir samanburð Viðskiptaráðs kjánalegan – „Þetta er skrítin framsetning hjá Viðskiptaráði“

Egill segir samanburð Viðskiptaráðs kjánalegan – „Þetta er skrítin framsetning hjá Viðskiptaráði“
Fréttir
Í gær

Innbrotið í King Kong: Afhjúpar meintan sökudólg og gefur honum tækifæri til að skila góssinu

Innbrotið í King Kong: Afhjúpar meintan sökudólg og gefur honum tækifæri til að skila góssinu