Syrskyi ræddi við þýska miðilinn ZDF eftir heimsóknina í fremstu víglínu og sagði að staðan sé „erfið“. „Óvinurinn sækir fram við næstum alla víglínuna og við erum ekki lengur í sóknaraðgerðum, heldur vörn,“ sagði hann.
Þessi ummæli eru í takt við þær fréttir sem berast daglega frá víglínunni. Þessa dagana einkenna margar litlar sóknir rússneska hersins stöðuna þar, allt frá Kharkiv í norðri til hinna hörðu bardaga sem geisa um Avdiivka í Donetsk og áfram til Zaporizjzja en þar sóttu Úkraínumenn fram á síðasta ári.
En þrátt fyrir langt tímabil með miklum sóknarþunga hefur Rússum þó ekki tekist að brjótast af alvöru í gegnum úkraínsku varnarlínurnar. Af þeim sökum eru bardagarnir enn innan þess ramma sem Syrskyi kallar skammtímamarkmið. „Markmiðið með varnaraðgerðum okkar er að þreyta hersveitir óvinarins og hámarka tjón hans með því að nýta okkur varnarstöðu okkar og forskot okkar á tæknisviðinu hvað varðar notkun dróna og rafræns hernaðar og með því að halda yfirráðum yfir velbúnum varnarlínum okkar,“ sagði hann.
Hann sagði að ef Rússar sæki enn harðar að Úkraínu sé hann reiðubúinn til að gefa landsvæði eftir frekar en að fórna lífi margra hermanna.
Það gæti reynt á þessi ummæli hans í tengslum við Avdiivka en Rússar hafa nánast umkringt bæinn og láta sprengjum rigna yfir hann. Eina leið Úkraínumanna til bæjarins er eftir þröngri leið.
Phillips P. O´Brien, prófessor við University of St. Andrews, segir að auk þess að takast á við augljósan þrýsting frá rússneska innrásarliðinu, þá sé einnig þrýstingur á Syrskyi í hans eigin herbúðum um að skila árangri en margir innan hersins eru ósáttir við þær breytingar sem voru gerðar á yfirstjórn hersins í síðustu viku.