Nöfn Rússana hafa ekki verið birt opinberlega en rannsóknarmiðlinum Bellingkat hefur tekist að rekja þræðina til leyniþjónustu rússneska hersins, GRU, í tengslum við sprengingu við eina vopnageymslu. Rétt er að hafa í huga að Búlgaría er meðlimur í NATO.
Samkvæmt handtökuskipuninni eru öll aðildarríki ESB skyldug til að handtaka Rússana sex. Þeir eru grunaðir um hryðjuverk.
Í tilkynningu frá saksóknurum segir að „það liggi fyrir að sex rússneskir ríkisborgarar hafi heimsótt Búlgaríu og notað fölsuð persónuskilríki“. Þeir hafi tekið þátt í að sprengja framleiðslu vopnaverksmiðju í loft upp.
Rússarnir eru sagðir tengjast fjórum aðskildum atburðum. Sá fyrsti átti sér stað 2011 en þá sprakk skotfærageymsla nærri bænum Lovnidol,, sem er í norðurhluta landsins, í loft upp.
2015 sprakk lagerhúsnæði í bænum Iganovo, sem er í miðhluta landsins, en í því voru skotfæri framleidd og geymd. Síðar á þessu sama ári sprakk skotvopnaverksmiðja í bænum einnig.
Nýjasti atburðurinn átti sér stað 2020 þegar geymsla við skotfæraverksmiðju í Maglizh sprakk.
Jótlandspósturinn segir að auk fyrrgreinda atburða hafi dularfullir atburðir átt sér stað við fleiri skotfæraverksmiðjur og skotfærageymslur í Búlgaríu síðan 2011. Síðast í júní á síðasta ári þegar eldur kom upp í skotfærageymslu í eigu búlgarska fyrirtækisins EMCO. Ári áður komu einnig upp eldur í sama húsi og orsakaði sprengingu. EMCO átti stóran hluta þeirra skotfæra sem sprungu í Lovnidol 2011. Eigandi fyrirtækisins er búlgarski vopnasalinn Emilian Gebrev.
Rannsóknarmiðillinn The Insider segir að Gebrev selji mikið af gömlum skotfærum, sem voru framleidd á tíma Sovétríkjanna, en þau eru mjög eftirsótt af löndum eins og Georgíu og Úkraínu.
Árið 2015 veiktist hann skyndilega og féll í dá eftir að hafa snætt hádegisverð með viðskiptavinum í Sofíu, höfuðborg Búlgaríu. Skömmu síðar veiktist sonur hans sem og framleiðslustjóri EMCO. Þeir náðu sér allir þrír.
Bellingcat segir að foringjar rússnesku leyniþjónustunnar GRU hafi verið í Sofíu á þessum tíma. Einn þeirra var einnig í Bretlandi þegar rússneskir leyniþjónustumenn eitruðu fyrir Sergei Skripal, fyrrum liðsmanni rússnesku leyniþjónustunnar, og dóttur hans með taugaeitrinu Novichok sumarið 2018.
Þrír Rússar hafa verið ákærðir fyrir morðtilraun á Gebrev, syni hans og framleiðslustjóranum. Gebrev er sjálfur „100% viss um“ að GRU hafi staðið á bak við veikindin og skemmdarverkin á vopnageymslum hans.