Í gær sagði DV frá því að Anna Kristjánsdóttir sem búsett er á Tenerife hefði tekið að sér að koma eigum vinar síns, Guðna Más Henningssonar, fyrrum útvarpsmanns, fyrir, en Anna vill gera allt sem í sínu valdi stendur til að koma eigum Guðna Más heim til Íslands.
Sjá einnig: Anna vill koma eigum Guðna Más heitins heim
Anna greindi frá þessu í daglegum pistli sínum á Facebook-síðu sinni. Um er að ræða nokkurt magn eða eins og Anna segir: „Mikið safn hljómplatna og geisladiska auk rándýrra hljómtækja. Mér skildist að þetta væri allt í þrettán ferðatöskum.“
Aðeins degi síðar hefur strax dregið til tíðinda, hluti af eigum Guðna Más á leið til landsins og fjölmargir hafa tekið vel í færslu Önnu og boðist til að aðstoða Önnu og dóttur Guðna Más fjárhagslega til að koma eigum Guðna Más heim til Íslands.
„Ég fékk dótið hans Guðna Más til mín í morgun með sendibíl og var öllu komið fyrir í geymslunni hennar Helenu. Ég fór að mæla þetta og reyndist það vera rúmir tveir rúmmetrar, en til einskærrar heppni hafði ein vinkona mín samband í gær og bauðst til að taka tvær af töskunum heim til Íslands og þar með fer heildarrúmmálið niður fyrir tvo rúmmetra og þess auðveldara að flytja afganginn í einu lagi til Íslands,“ segir Anna.
Þrátt fyrir að tvær af töskunum séu nú á heimleið og einhverjir hafi í athugasemdum bent á að það sé góð leið að fá vini og íslendinga sem geta gripið með sér tösku til landsins segir Anna það ekki breyta því að dóttir Guðna Más þarf fjárhagslega aðstoð við flutninginn.
„Það breytir ekki því að dóttir hans er illa stödd fjárhagslega eins og er og því væri gott ef einhverjir vinir og gamlir aðdáendur Guðna geti haft samband við hana og rétt henni hjálparhönd við að koma dótinu hans heim. Hún heitir Katrín Ísafold Guðnadóttir og er á Facebook, en til að einfalda málið, þá er hún með bankareikning 0315 – 26 – 030594 og kennitalan er 030594-2589. Hún er sjálf á fullu í að leita tilboða um ódýran flutning á dótinu hans til Íslands,“ segir Anna.
Bendir hún á að Eimskip, fyrrum vinnustaður Guðna Más gæti séð sóma sinn í að gefa dóttur hans góðan afslátt af flutningnum.
„Þessar flutningamiðlanir mættu líka sjá sóma sinn í að hjálpa henni með því að veita henni góðan afslátt, þá ekki síst Eimskip enda starfaði Guðni Már þar í mörg ár þegar hann var yngri, en það var þar sem ég kynntist honum.
Hvað sem því líður, þá gekk dagurinn að vonum þótt ég væri að þeysast um allt eins og útspítt hundskinn.“
Kona ein segir ekki marga þurfa að aðstoða svo koma megi eigunum heim: „Þú ert með 4,9 þ. vini. Það þyrfti ekki marga til að leggja smáræði inn hjá Katrínu Ísafold og bjarga þessu. Við erum frekar stór hópur sem gleymum ekki Guðna Má í bráð. Síðast saknaði ég raddarinnar hans á rás eitt á aðfangadag. Sýnum samstöðu og munum: Margt smátt gerir eitt stórt. “
Þeir sem vilja styrkja dóttur Guðna Más um að koma eigum hans heim geta lagt inn á neðangreindan reikning:
Kennitala: 030594-2589
Reikningur: 0315 – 26 – 030594