Björgunarsveit Suðurnesja minnist látins félaga síns með færslu á Facebook. Frímann Grímsson, sem lést í bílslysi á Grindavíkurvegi ásamt eiginkonu sinni, Margréti Á. Hrafnsdóttur, var félagi í Slysavarnafélaginu Landsbjörg, fulltrúi í svæðisstjórn björgunarsveitarinnar til fjölda ára og gegndi fleiri trúnaðarstörfum fyrir félagið.
„Það var sárt að Frímann Grímsson og eiginkona hans, Margrét Á Hrafnsdóttir, létust í bílslysi á Grindavíkurvegi.
Frímann hefur starfað í björgunarsveit í langan tíma eða í yfir 40 ár. Hann starfaði sem formaður björgunarsveitarinnar Stakks, sem er ein af stofnsveitum Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Hann fluttist því yfir og starfaði hér síðan.
Þegar Frímann flutti austur á Bakkafjörð vegna vinnu árið 2000, þá starfaði hann með björgunarsveitinni þar. Hann var fulltrúi okkar í svæðisstjórn í mörg ár, starfaði sem umsjónarmaður björgunarskipsins Hannesar Þ. Hafstein í Sandgerði og var í nefnd um hönnun og smíði á nýjum björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Við viljum senda fjölskyldu Frímanns og Margrétar innilegar samúðarkveðjur frá okkur og þökkum Frímanni fyrir samstarfið síðustu áratugina.“
Sjá einnig: Nöfn þeirra sem létust á Grindavíkurvegi