Héraðssaksóknari hefur höfðað mál á hendur manni fyrir brot gegn leikskólabörnum á Suðurnesjum. Meint brot voru framin árið 2022 og virðist sem maðurinn hafi verið starfsmaður á leikskólanum, miðað við atvikalýsingar í ákæru , en það er þó ekki staðfest.
Maðurinn er í fyrsta lagi sakaður um að hafa fengið þrjú börn til að girða niður um sig og sýna á sér rassinn. Var þetta kallað „bossapartý“. Hann er einnig sagður hafa girt niður um sjálfan sig og sýnt börnunum rassinn á sér. „…með háttsemi sinni særði hann blygðunarsemi þeirra og sýndi þeim ósiðlegt athæfi,“ segir í ákæru.
Í öðru lagi er hann sakaður um kynferðislega áreitni gegn barni er hann nuddaði og strauk rassinn á barni utanklæða.
Í þriðja lagi er hann sakaðu rum að hafa farið innundir buxur og nærbuxur á dreng og káfað á kynfærum hans.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd eins drengs er krafist 1,5 milljóna króna á miskabætur, fyrir hönd annars drengs 2,5 milljóna og fyrir hönd stúlku er krafist 1,5 milljóna.
Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness þann 21. september síðastliðinn. Það bendir til að það verði útkljáð með dómi fyrir áramót.