Stjórn Júdódeildar UMFS á Selfossi hefur sent bréf til Júdósambands Íslands (JSÍ) og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við val á keppendum í A-landslið Íslands í júdó, en Selfyssingarnir telja engin fagleg rök vera fyrir því að synir stjórnarmanns í JSÍ séu valdir í landsliðið.
Umræddur stjórnarmaður var áður formaður UMFS en var kosinn burt vegna óánægju með þá ráðstöfun hans að ráða erlenda þjálfara til deildarinnar. Hann stofnaði síðan ásamt fleirum Júdófélag Suðurlands. Erlendi þjálfarinn sem hann réði til UMFS er núna framkvæmdastjóri JSÍ. Júdódeild UMFS telur hagsmunatengsl ráða landsliðsvali en því vísar JSÍ á bug.
Í bréfi Júdódeildar UMFS segir að brotið sé gegn afreksstefnu Júdósambandsins með vali á sonum stjórnarmannsins og spurt er: „Hvers vegna er ekki farið eftir afrekstefnu JSÍ við val á keppendum fyrir Íslands hönd á mótum erlendis?“
Þá segir ennfremur: „Hverjar eru skýringar JSÍ á því að velja ekki okkar fremsta afreksfólk sem mögulega þátttakendur á OL 2024, en velja í staðinn iðkanda sem er með áberandi slaka punktastöðu á afrekaskrá JSÍ?“
Loks segir í bréfinu:
„Það er erfitt að líta fram hjá því að val á sonum eins stjórnarmanns JSÍ vekur furðu þar sem engin fagleg rök finnast sem skýrt geta valið. Júdódeild UMFS telur það vera augljóst brot á reglum JSÍ að ganga framhjá okkar helsta afreksfólki við val á fulltrúum þjóðarinnar á mótum erlendis. Einnig eru þetta vond skilaboð sem JSÍ sendir þeim iðkendum sem hafa náð framúrskarandi árangri í íþróttinni, með fjölmörgum mótum innanlands og erlendis. Telur stjórn Judodeildar UMFS að háttsemi JSÍ sé ekki í anda íþróttahreyfingarinnar og muni jafnvel skaða judostarf í landinu.“
Umræddur stjórnarmaður segir í samtali við DV að hann sé sleginn yfir þessum málflutningi deildarinnar og segist ekkert hafa með landsliðsval að gera, enda sé hann gjaldkeri sambandsins. Hann vill því lítið láta hafa eftir sér um málið en telur sendinguna frá UMFS ekki vera maklega.
Hann bendir á að landsliðsþjálfari sé Simonswili og hann sé algjörlega einráður um val á keppendum í A-landslið.
Bréf Júdódeildar UMFS var tekið fyrir á stjórnarfundi JSÍ sem sendi frá sér svarbréf seint í síðustu viku. Þar er tekið fram að umræddur stjórnarmaður hafi ekki setið stjórnarfundinn. Stjórn JSÍ bendir á í svarbréfi sínu að landsliðsþjálfari hafi ekki eingöngu punktastöðu til hliðsjónar við val á keppendum í landsliðsverkefni. Það sé grundvallar atriði. Við val á keppendum sé horft til punktastöðu, ástundunar, líkamlegs ástands og niðurstöðu úr þrek- og styrktarprófum. „Að auki hefur landsliðsþjálfari til hliðsjónar frammistöðu iðkenda á sameiginlegum Randori æfingum sem haldnar eru á föstudögum.“ Einnig séu valdir keppendur sem hafi verið duglegir að sækja mót erlendis.
Við spurningu um hvers vegna synir stjórnarmannsins séu valdir til að keppa á mótum erlendis þótt aðrir iðkendur standi hærra í punktakerfi JSÍ og eigi stærri afrekssögu er því svarað að þessir keppendur æfi meira en aðrir og hafi sýnt miklar framfarir. Ástæður fyrir vali á þeim hafi ekkert með faðerni þeirra að gera og faðir þeirra komi ekkert að landsliðsvali.
Stjórn UMFS hefur svarað með öðru bréfi og gert athugasemdir við svör JSÍ. Er til dæmis spurt hvernig fylgst sé með ástundum keppenda og líkamlegu ástandi þeirra. Þá er gerð athugasemd við þau rök að valdir hafi verið keppendur sem hafi verið duglegir að sækja mót erlendis en síðan sé ekki minnst á árangur. „Má því ætla að fjársterkir einstaklingar geti keypt sér sæti í landsliði með því að vera duglegir að sækja mót erlendis án þess að gefa upp árangur.“
UMFS segir að gagnsæi sé ekki tryggt. Þá segir ennfremur:
„Svar stjórnar JSÍ við annarri sprningu Judodeild UMFS um val á sonum XXX til keppni á mótum erlendis, þrátt fyrir að við eigum marga keppendur sem náð hafa mun betri árangri, segir að þeir hafi verið einbeittir við þjálfun sína og taka æfingum af fullri alvöru. Spurningin til JSÍ er hvort afreksfólkið okkar, það sem státar af hárri punktastöðu á afrekaskrá JSÍ, sé með hendur í vösum á æfingum og mótum. Hér er stjórn JSÍ að gera lítið úr okkar helsta afreksfólki.“